Vinsamleg tilmæli til Vinstri grænna.

Ég hætti mér ekki í brottkastumræðuna að þessu sinni, en ég tók virkan þátt í henni árin 2003- 2006 svo ég fékk alveg nóg af..... Hins vegar sendi ég völdum þingmönnum smá pistil í kjölfar fréttaþáttar Helga Seljan, Kveikur í gærkveldi... Í pistlinum er ég að í aðra röndina að reyna að brýna kutann fyrir Katrínu Jak. En fyrir viku síðan hafði ég sent henni annan og ýtarlegri sem er of langur hér inni.   

 

Þingflokkur Vinstri grænna. 21.11 2017.

Í síðustu viku skrifaði ég pistil sem ég kallaði, innlegg í samningaviðræður, Katrínar Jakobsdóttur við þá Bjarna Ben og Sigurð Inga. Í pistlinum tiltók ég nokkur atrið sem ég taldi brýnt að hafa í huga í samningum hennar við þá fulltrúa forréttinda og sérhagsmuna. Nefndi ég alveg sérstaklega hvernig Sigurður Ingi misbeitti valdi sínu og sýndi fáheyrða ósvífni er hann sem sjávarútvegsráðherra hóf árið 2015 að reyna að koma makrílveiðum smábáta í kvóta.

Þó flestum sé ljóst að maður með ónýta kennitölu og afglöp á ferilskránni eigi mjög litla möguleika á þokkalegu starfi í einkageiranum, þá er allt annað upp á teningnum á hinu pólitíska sviði. Það sem mér yfirsást um daginn er sú yfirvofandi hætta að blessaður maðurinn verði endurráðinn. Ef það gerist verða Vinstri græn að standa alveg klár á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi að við erum ekki með “besta fiskveiðikerfi í heimi” sem allir horfa öfundaraugum til. Sú mýta er orðin það þvæld eins og við sáum í þættinum Kveik í Sjónvarpinu í kvöld; að þorskur sem hangir á skreiðarhjalla er sem ferskfiskur í samanburði.

Nágrannaþjóðir okkar sem “tekið hafa okkur til fyrirmyndar” eru nú hver af annarri að laga kúrsinn og snúa sinni útgerð af rangri leið. Það er m.a. að renna upp fyrir mörgum að það þarf ekki togara hlaðinn meiri tækni en geimskip til að veiða þorsk á grunnslóð. Sérstaklega ekki þegar haft er í huga að þorskaflinn hér við land er ekki meiri en hann var á árunum á milli fyrri- og seinni heimsstyrjalda.

Það er allt gott og blessað með tæknina en það á ekki að leyfa henni að drepa lífið á landsbyggðinni í leiðinni. Þá hafa sífellt fleiri verið að átta sig á því að það er eitthvað verulega rangt við þá þróun að ætla stöðugt að fækka þeim sem lifibrauð sitt hafa af sjómennsku á sama tíma og atvinnuþróunarfélög gera hvað þau geta til að finna upp á - bara einhverju í staðinn. Á meðan syndir þorskurinn áhyggjulaus fyrir utan bryggjuna; vegna þess að nokkrir menn, ýmist fyrir sunnan eða norðan, eru sagðir eiga hann.

Það bárust fréttir af því fyrir um tveim vikum að ESB hafi miklar áhyggjur af fækkun sjómanna og ætli að snúa þeirri þróun við. Þeir hafa miklar áhyggjur þrátt fyrir að sjómenn í fullu- eða hlutastarfi séu nálægt 70 þúsund innan þeirra vébanda. Og hvers vegna skyldi það nú vera; jú vegna þess að þeir skilja mikilvægi þess að menn geti stundað þá atvinnu sem hugur hvers og eins stendur til – fyrir utan kúltúrinn í byggðunum sem annars myndi hverfa. Hér heima hafa menn hins vegar þurft að kæra ríkið til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem ályktaði þeim í hag. Og hvernig brugðust stjórnvöld við; jú með því að gera eins litið og hægt var að komast upp með.

Er við öðru að búast þar sem heimskan ríður húsum. Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Ben, sagði t.d. fyrir stuttu síðan… að hann skildi ekki þessa strandveiði, því það mætti spara mikinn mannskap með því að taka þennan afla með einu línuskipi. Hann virðist ekki skilja að það er ýmislegt fleira sem gefur lífinu gildi en að spila golf, fara til Florida eða renna sér á skíðum í Ölpunum. Menn eru bara ekki allir eins innréttaðir og Bjarni.

Nema Bjarni hafi verið að meina eitthvert af línuskipum tveggja stærstu línuútgerða landsins. Meðalaldur skipa þessa fyrirtækja er annars vegar 42 ár og hins vegar 49 ár. Þessi glæsilegu fyrirtæki hafa m.ö.o ekki verið að henda miklum fjármunum í nýsmíði í gegnum tíðina. En samkvæmt efnahafsreikningi þeirra er samt alveg klárt að þau hafa verið að henda þeim eitthvert. Því fastafjármunirnir eru minni en vaxtaberandi langtímaskuldir. Þær eiga með öðrum orðum ekki neitt í gömlu skipunum heldur. Einu bókfærðu eignir þeirra er kvótinn - sem ef mig misminnir ekki er sameign þjóðarinnar.

Það sama má raunar segja um Granda. Fastafjármunirnir mínus vaxtaberandi langtímaskuldir eru aðeins rétt yfir núllinu síðast þegar ég athugaði. Talandi um vexti, þá er sennilega öll sú glæsilega uppbygging sem að undanförnu hefur átt sér stað í skipum og hátækni- frystihúsum fjármögnuð erlendis frá, á vöxtum sem eru eitthvað aðeins fyrir ofan núllið. Undirritaður getur staðfelst að smábátaflotinn er að fjármagna sig á 8-9% … er einhver að tala um mismunun eða aðstöðumun?... er stórútgerðin yfir höfuð að nota íslensku krónuna, ég bara spyr.

Nú duga engar smáskammtalækningar líkt og að færa einn dag af svæði C yfir á svæði D eða annan sambærilegan fíflagang. Þeirri ósvinnu stjórnvalda að etja einum hópi smábáta gegn öðrum eins og mýmörg dæmi er um þarf að linna. Þá verða stjórnvöld einnig að átta sig á að nær allir sem berjast fyrir kvóta - um allt og ekkert – gera það í þeim eina tilgangi að geta selt hann síðar meir. Lyfleysu tímabilinu á þannig að vera lokið og annað tímabil runnið upp þar sem handfæraveiðar verða frjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Punktur.

Umræðan og þrýstingurinn á stjórnvöld og stórútgerðina virðist ætla að koma að utan líkt og vökulögin gerðu á sínum tíma. Sem fyrr segir hefur ESB miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi og allri græðisvæðingunni sem þar hefur orðið. Hvort “innganga” Samherja í ESB hafi eitthvað með það að gera skal ósagt látið.

Á ráðstefnu í Tromsö í Noregi um daginn spannst sterk umræða um það með hvaða hætti smábátaflotinn gæti varist yfirgangi stórútgerðanna. Meðal þess sem fram kom fram var tillaga prófessor við háskólann þess efnir að leitað yrði til Mannréttindadómstólsins í Hag til að verja eðlileg og sjálfsögð mannréttindi smábátasjómanna. Þá voru að berast fréttir af því að náðst hafi breið samstaða allra stjórnmálaflokka í Danmörku um að stöðva beri samþjöppun veiðiheimilda og koma þannig í veg fyrir að stærri útgerðir gangi af smábátaútgerð dauðri.

Hér heima er það helst að frétta að í síðustu viku var haldin tveggja daga ráðstefna í Hörpu um sjávarútvegsmál. Það voru haldin a.m.k. 14 erindi og fjöldi málstofa þar sem nánast allt sem viðkemur nútíma sjávarútvegi var tekið fyrir og grandskoðað - allt niður í smæstu örverur - en ekkert um mannverur.

Ef Vinstri græn standa ekki í lappirnar í samningum sínum við fulltrúa forréttinda og sérhagsmuna, er flokkurinn varanlega búinn að spyrða sig við spillingaöflin…

Undirritaður er fyrrverandi veiðarfærasölumaður og smábátaeigandi.

atlihermanns@gmail.com


mbl.is „Verður kært strax í fyrramálið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

floyde

Höfundur

Atli Hermannsson.
Atli Hermannsson.

Ég er fæddur og uppalinn Akureyringur, búsettur í Kópavogi. 

metaco@simnet.is

Sími 897 8060 

Tónlistarspilari

Allman Brothers Band - Whipping Post
Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • 08.19.Nordvag02c
  • 08.19.Nordvag02c
  • CAM00620
  • JB23
  • JB22

Tónlist

Tónlist


Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 42897

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband