14.6.2024 | 13:26
Þetta er Sjálfstæðisbarátta.
Landhelgisstríðin hafa þá verið unnin til einskis. Núverandi kvótafyrirkomulag er svik við þjóðina. Þetta sagði Guðmundur skipherra Kjærnested í tímaritinu Ægir í tilefni af því að 30 ár voru þá liðin frá því landhelgin var færð út í 50 mílur. Hann sagðist jafnframt ekki hafa tekið þátt í útfærslu landhelginnar í 200 mílur hefði hann getað ímyndað sér ástandið í dag. Frá viðtalinu við Guðmund eru liðin 22 ár og ekki margt sem glatt gæti hann í dag - vitandi að síðan hefur snarast enn frekar á merinni.
Hugmyndin var aldrei sú að berjast við Bretann svo fáeinar fjölskyldur gæti makað krókinn á kostnað almennings. Að fáeinar fjölskyldur gætu fénýtt sér sameign þjóðarinnar í eigin hagsmuna skyni. Að samlegðarkerfi yrði komið á við veiðar, vinnslu og sölu á fiskafurðum erlendis sem gerði sömu einstaklingum kleift að ákveða fyrir sig eina hvar og inni á hvaða reikninga hin svo kallaða auðlindarenta þjóðarinnar lenti.
Það er ekki við einstaka stjórnmálamenn að sakast. Því það er þjóðin sem kýs þetta vanhæfa fólk til að gæta sinna hagsmuna. Um þessar mundir eru flokkar við völd sem aðeins njóta stuðnings rúmlega 30% þjóðarinnar. Þetta fólk hefur samt ekki sýnt neitt fararsnið og eru því réttnefndir valdaræningjar - sem hugsa um það helst hvernig koma megi eignum og öðrum verðmætum þjóðarinnar í hendurnar á fámennum hópi forréttinda og sérhagsmuna.
Þessa dagana er allt að fara á límingunum á stjórnarheimilinu vegna hvalveiða - eða ekki hvalveiða - og allir óánægðir.
Hvalveiðar eru mjög umdeildar - en það eru strandveiðar ekki. Í könnun við gerð skýrslunnar "Auðlindin okkar" kemur fram að 72.3% þjóðarinnar vill auknar heimildir til strandveiða - en ekkert gerist. Bjarkey Ólsen nýr sjávarútvegs ráðherra hefur margoft á síðustu árum talað fyrir auknum strandveiðum. En þegar hún getur með lítilli breytingu á reglugerð tryggt aflaheimildir sem duga út ágúst, þá segist hún hafa komist að því daginn sem hún tók við að kerfið væri flóknara en hún hafi gert sér grein fyrir og gæti "því miður" ekkert gert að sinni - en hún muni gera allt fyrir strandveiðisjómenn í haust - eða einhvern tíma seinna.
Nú snerta strandveiðar 10 x fleiri einstaklinga og fjölskyldur en hvalveiðar og því verður fróðlegt að fylgjast með stjórnarliðum þegar kemur að því í byrjun næsta mánaðar að aflaheimildir klárast og 700 sjómenn sitja heima aðgerðarlausir, litlar fiskvinnslur fá ekki hráefni og lífið stoppar í kringum hafnirnar vítt og breitt um landið.
Þetta er bara sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar