1.9.2012 | 20:10
The Santana and Allman Brothers Band.
Þegar ég hóf að safna hljómplötum á sínum tíma urðu tvær hljómsveitir fyrstar fyrir valinu. Önnur þeirra var Santana sem stuttu áður hafði slegið í gegn á Woodstock hátíðinni. Hin var The Allman Brothers Band sem þá þegar hafði full skapað sem síðan hefur verið kallað Suðurríkjarock - með níðþungu Hammondi, tveim trommurum og tveim frábærum gítarleikurum. Allar götur síðan hef ég fylgst nokkuð vel með þessum sveitum og síðustu árin á heimasíðum þeirra.
Í vor tek ég svo eftir því að hljómsveitirnar ráðgerðu að fara saman í tónleikaferð um Bandaríkin. Ég sá í hendi mér að af þessu mætti ég ekki missa - enda líkt og forlaugin væru hér að verki.
Tónleikarnir voru þann 24. júlí á stórglæsilegum stað sem heitir Nikon at Jones Beach Theater sem er á Long Beach. Eftirvæntingin var eðlilega mjög mikil; hvernig verður sándið, lagavalið eða útsetningarnar á gömlu lögunum sem vonandi fá að eiga sviðið.
Santana byrjaði í björtu á slaginu sjö og spilaði óslitið í tvo tíma. Flutningurinn og hljómburðurinn var algerlega með ólíkindum flottur og þá var lagavalið eins og sniðið að mínum smekk. Það er ekki hægt að útskýri alla hluti. En þegar Santana renndi sér í seinna uppklappið sem hann útsetti með þekktum stefum og skreytingum úr öðrum lögum - þá vonaði maður eitt augnablik að lagið tæki aldrei enda. En þegar því lauk stökk maður á fætur við hliðina á Ingibjörgu og hrópaði upp yfir sig holy shit" í merkingunni, hvernig var þetta eiginlega hægt.
Þá kom hálftíma hlé á meðan rótað var á sviðinu fyrir Allman Brothers Band. Aumingja þeir að þurfa að koma á eftir þessum ósköpum hugsaði maður með sér. En þeir höfðu gert það áður og áhyggjurnar reyndust ástæðulausar. En böndin hafa þann háttinn á að skiptast á um að byrja.
Myndin af Santana hér til hliðar er tekin þaðan sem við Ingibjörg sátum, en hinar teknar af vinkonu okkar Gwyn Dunham.
Fæstir hér heima vita að ABB er og hefur verið ein stærsta og virtasta hljómsveit Bandaríkjanna frá stofnun hennar fyrir rúmum 40 árum. Það fann maður greinilega þegar þeir stigu á svið. Þá eru þeir ekkert farnir að slá af. En þess má geta að þrír meðlimir ABB þeir Gregg Allman, söngvari og hljómborðsleikari, Warren Haynes, gítarleikari og Derek Trucks, gítarleikari reka einnig eigin hljómsveitir sem mikið hefur borið á síðustu árin. Þá voru þeir allir með sína plötuna hver útnefndir á síðustu Grammy hátíð með Bestu Blús Plötu ársins 2012. Hljómsveit Dereks and Susan Tedeschi Trucks sigraði með plötuna Revelator.
Það var afar sérstök upplifun að berja The Allman Brothers Band loksins augum eftir að hafa fylgst með þeim nánast frá stofnun. Stemmingin var að sjálfsögðu ólík salsa - rúmbu - og tja-tja taktinum hjá Santana. Enda allt í bullandi blús fíling hjá þeim þar sem gömlu lögin voru djömmuð út og suður. Þeir hefðu að ósekju mátt taka aðeins fleiri lög og stytta djammið aðeins, en ekki er á allt kosið. Síðasta lagið sem þeir tóku var Whipping Post sem finna má í spilaranum hér við hliðina. En þegar gengið var út í nóttina ómaði lagið Little Martha í hátalarakerfinu - dagur var liðinn sem aldrei mun líða mér úr minni - ekki einu sinni þó ég fái alzheimer.
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir að deila þessari frásögn með okkur Atli. Ég er einn af þessum sem hef líka fylgst með ABB lengi.
ABB voru hreint út sagt frábærir og sérstaklega á tíma bassaleikarans Berrie Oakley og hins stórkostlega gítarleikara Duane Allman. Gregg, bróðir Duane samdi nær öll lögin, þám. Whipping Post, fyrir utan klassíska blússtandarda sem voru djammaðir út og suður. Dúndrandi trommuhrynjandin hjá JJJ og Trucks var svo vitaskuld ómissandi hluti af sándinu. Og vitaskuld gítar samspil hinna gjörólíku gítarleikara, en beggja jafn stórkostlegra, Duane og Dickie Betts. Duane, lýrískt svífandi en Dickie töff og kúl.
Eftir hörmulega dauðdaga Berrie og Duane (23 ára) í mótorhjólaslysum með nokkurra mánaða millibili, þá náðu þeir sér þó aftur upp með auknu framlagi hins ofursvala Dickie Betts, sem skilaði sér á Brothers and Sisters plötunni, með Chuck Leavel á píanói og Gregg vitaskuld áfram á Hammondnum og með blúsaðan sönginn.
En þá er það stóra spurningin, spilaði hinn ofursvali Dickie Betts með Gregg Allman á tónleikunum? Eða talast þeir ekki lengur við Gregg og hinn ofursvali Dickie Betts? 2 gítarleikarar, 2 trommuleikarar, bassi og orgel er möst með ABB.
Um 5 árum síðar henti sambærileg ógæfa Lynyrd Skynyrd (flugslysið) og ABB. 2 stórkostleg, mér liggur við að segja yfirburða suðurríkja bönd, sem enn lifa á fornri frægð og vegna óbugandi dugnaðar að halda andanum á lofti. ABB er þó skár statt í dag en LS, því í Skynyrd er reyndar bara Gary Rossington enn lifandi af orginal bandinu.
Takk, alltaf jafn frábært að endulifa hlustun á hinu hrynmikla Whipping Post .
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 22:36
Þar sem ég sé að við höfum líkan tónlistarsmekk Atli, þá vona ég að þú fyrirgefir mér að ég laumi hér inn smá viðbót um LS fram til 1977:
Hér segir af Ronnie van Zandt og sándinu sem hann leitaði að, samhljóm lífsins, með nokkrum strákum í verkaraborginni, Jacksonville í Florida. Hann var nokkrum árum eldri en guttarnir sem hann fann og skynjaði að gætu töfrað eitthvað snilldarlegt fram ef þeir æfðu og æfðu, með blóði svita og tárum. Ekkert annað kom til greina en að verða besta band heimsins, ekkert annað var nógu gott og hann pískaði strákana sína áfram, miskunnarlaust eins og hann ætlaði renglulegur og lítill strákur fyrst að verða boxmeistari (en fann sér sem betur fer annað Kall), en þegar allt gekk upp var enginn sem var eins stoltur af strákunum “sínum” og Ronnie, enda voru þá allir staddir í samhljóm og undursamlegum galdri lífsins. Mæli með þessari útgáfu af Free Bird vþa. þarna er einnig hægt að smella á “FREEBIRD THE MOVIE” 1 HOUR AND 45 MINUTES OF LYNYRD SKYNYRD,
http://www.youtube.com/watch?v=VX3cbFJ3lYU
Svo er ekki amalegt að hlusta á bandið spila T for Texas og sjá Ronnie brosa alsælan og stoltan af því sem honum tókst með sinni úrvalssveit. Alsæla og stolt hans leynir sér ekki á mínútu 5:00 og hugleiðandi það áfram í hálfa mínútu rúma; hvað hann hafði náð að áorka, einn maður líkt og Springsteen síðar, með E Street Band, að ná þeim samhljóm sem víbraði í hjörtum okkar venjulega fólksins.
http://www.youtube.com/watch?v=SY63KTMrkTM
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 22:51
Sæll Pétur Örn. Ég er svo sammála þér að ég gæti hafa skrifað fyrra innleggið þitt. Það hefur eins og við vitum gengið á ýmsu hjá ABB í gegnum tíðina. En hálfur kjarninn er original að Duane, Dickey og Berry frátöldum. Það eru einhver 5-6 ár síðan Dickey hætti og þá held ég að hann sé að mestu búinn á því kallinn vegna heilsuleysis, þó er hann sé eitthvað að reyna sjálfur. Þá var að mig minnir ekkert af hans efni á tónleikunum eða nokkuð sem minnti á hans vörumerki. Þó veit ég að þeir eru að taka sumt af því eins og maður getur séð á youtub.
Annar gítarleikarinn Derrek Trucks, er bróðursonur Butch trommara og ólst hann greinilega upp með Duane sem fyrirmynd. Því hann var ekki nema 12 ára þegar hann var farinn að troða upp með þeim og taka Lyla eins og enginn væri morgundagurinn. Warren Haynes er búinn að vera í bandinu sem annar gítarleikarinn í yfir tvo áratugi og saman mynda þeir ekki teimi ekki ósvipað þeim Duane og Dickey. Þá ná þeir gamla fílingnum og gamla efninu óaðfinnanlega. Bassaleikarinn Oteil Burbridge er búinn að vera í bandinu frá 97 eða svo. En hann kemur inn í gegnum tengsl við Butch og einhver djass djamm hliðarverkefni eins og glöggir gera heyrt.
Til að hafa þetta ekki lengra að sinni, þá veit ég að þú hefðir gaman af því að sjá þegar þeir tóku við Lifetime Achivement award á Grammy. Því þó manni finnist kannski margir hafa komið að þessu bandi í gegnum tíðina, þá koma samt alltaf sömu nöfnin upp eins og þú átt eftir að heyra, eins og ein stór fjölskylda
http://www.grammy.com/videos/the-allman-brothers-accepting-lifetime-achievement-award-at-special-merit-awards
http://www.allmanbrothersband.com/
Atli Hermannsson., 2.9.2012 kl. 09:52
Sæll Atli. Takk kærlega fyrir þessar greinargóðu upplýsingar og "linkana". Já, ABB er eilífðar band:-)
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.