Hollvinasamtök útgerðarmanna

Hvað gengur manninum til.

Sagan endalausa um ágæti kvótakerfisins heldur áfram. Og sem fyrr skiptist hún í tvö horn; milli þeirra sem beinna hagsmuna hafa að gæta og hinna sem mjög gagnrýnir eru á ágæti kerfisins. En allir vita að kerfið er lokað forréttinda- og sérhagsmunakerfi fárra útvalina ásamt nýtingarstefnu Hafró sem hefur sýnt sig að hafa aldrei borið neinn raunverulegan árangur.

Það eru ekki andstæðingar kerfisins sem mest hafa sig í frammi í umræðunni þessa dagana; heldur sjálfskipaðir sótraftar sem reglulega eru settir á flot til að freista þess að flíka upp á laskaða ímyndina. Einn þeirra er Brynjar Níelsson þingmaður sem sér ástæðu til að koma Samherja til hjálpar - á þeirra erfiðu tímum.

Í nýlegri grein á Vísi.is skautar Brynjar fimlega yfir sögu fiskveiðikerfisins og lætur staðreyndirnar ekki þvælast of mikið fyrir. Brynjar byrjar grein sína á að taka það fram að þegar kvótakerfinu var komið á 1984 hafi frjálsar veiðar verið hér á Íslandsmiðum í takmarkaða auðlind. Hið rétta er að frjálsar veiðar voru aflagðar 1977 eða fimm árum áður þegar hið svo kallaða skrapdagakerfi var tekið upp.

Þá er honum tíðrætt um stöðugar gengisfellingar fyrri tíma og illa reknar bæjarútgerðir sem kostuðu almenning háar fjárhæðir. Nú ólst ég upp við hliðina á ÚA og kannast ekki við annað en að sú bæjarútgerð hafi alla tíð verið kjölfestan í atvinnulífi Akureyringa.

Lán í óláni.

Þá nefnir Brynjar hversu lánsöm við höfum verið að fara úr sóknarmarkskerfi og yfir í aflamarkskerfi árið 1983. Hér hefði Brynjari dugað að Googla - en sennilega hefur hann ekki nennt því. Hið rétta er að um áramótin 1983-4 var hið svo kallaða skrapdagakerfi lagt niður og blandað kerfi aflamars- og sóknardagakerfis tekið upp. Útgerðir gátu m.ö.o valið hvort kerfið hentaði þeim betur. Í byrjun völdu fáar útgerðir sóknarmarkið en þeim fjölgaði og á árunum frá 1986-90 var meira en helmingur þorskaflans veiddur af skipum í sóknardagakerfinu. Útgerðir sem valið höfðu sóknardagakerfið gekk m.ö.o. mun betur en þeim sem völdu aflamarkið. Það er ekki fyrr en með lögum númer 38/1990 og frjálsu -framsali aflaheimilda að allur flotinn var þvingaður yfir í hreint kvótakerfi eins og við þekkjum það. Og krafan kom aðalega frá Hafró sem taldi sig ekki geta “talið” fiskana í sjónum nema afleggja sóknardagakerfið. Rétt: út á það gengur starf Hafró eins undalega og það hljómar; að telja fiskana í sjónum.

Þá segir Brynjar það hafa hafi verið á árinu 1990 að framsal aflaheimilda hafi verið tekið upp. Hið rétta er að framsal aflaheimilda má rekja allt til ársins 1984 og var þá bundið milli skipa innan sömu útgerðar og síðan innan sömu verstöðvar. Brynjar nefnir hversu mikil lukka framsalið var fyrir greinina og í raun þjóðina alla, en virðist ekki átta sig á að frjálsa –framsalið var í rauninni fundið upp til þess eins að geta lagt niður sóknarmarkskerfið. Frjálsa-framsalið var m.ö.o “vængir kvótakerfisins” eins og Kristján Pálsson, fyrrverandi þingmaður sjálfstæðisflokksins orðaði það svo fallega.

Fast þeir sóttu sjóinn.

Ástæðan var sú að í byrjun aflamarksins árið 1984 var það aðeins þorskur sem fór í kvóta. Margar kvótalitlar útgerðir kepptust þá við að veiða verðmætan þorsk, sem gjarnan fékk nafnið ýsa þegar landað var, því ýsan var enn utan kvóta. Þegar ýsan fór síðan í kvóta fengu hinar sömu útgerðir því drjúgan ýsukvóta. Þær gátu þannig haldið áfram að veiða þorsk og bætt ýsu við — sem svo aftur fékk nafnið ufsi, steinbítur, keila eða langa við löndun. Þegar þær tegundir fóru ein af annarri í kvóta fengu þessar útgerðir úthlutað í samræmi við meinta veiðireynslu — fölsuðu löndunarskýrslurnar. Menn stálu sem sagt einni verðmætari fisktegund sem var í kvóta og voru síðan verðlaunaðir fyrir þjófnaðinn með annarri þegar hún fór í kvóta. Þegar allar helstu botnfisk tegundirnar voru komnar í kvóta var hluti flotans sem valið hafði kvótaleiðina með svo brenglaða veiðireynslu á pappírunum, að það var ekki viðlit að veiða eftir henni. Lendingin var fullt-framsal aflaheimilda, svo hægt væri að vinda ofan af vitleysunni. Þannig var nú það Brynjar minn.

Gjafakvótinn.

Þá segir Brynjar að Samherji hafi ólíkt mörgum öðrum haft litlar sem engar veiðiheimildir í upphafi kvótakerfisins, vart meira en einhver trilla. Þetta stenst heldur ekki. Því þeirra fyrsta skip, frystitogarinn Akureyrin EA 10 fékk tæplega 3.400 tonna þorskkvóta. Með togaranum Guðsteini GK fékk Akureyrin 1.380 tonna gjafakvóta auk 1.997 tonna skipstjórakvóta Þorsteins Vilhelmssonar, samtals að verðmæti ca 10 milljarða í dag. Það rótfiskaðist á Akureyrina sem var sá dráttarkálfur sem lagði grunninn að útþenslu Samherja næstu árin - en það er önnur saga.

Brynjar bætir við að eftir 1990 þegar markaður var kominn með veiðiheimildir hafi Samherji tekið mikla áhættu, veðsett sig upp í rjáfur, og keypt aflaheimildir jafn og þétt. Ég set spurningamerki við að þeir Samherjar hafi tekið mikla áhættu; því þeir lögðu aldrei fram neitt eigið fé; eingöngu lánsfé frá Landsbankanum með ábyrgð frá Akureyrarbæ. En duglegir voru þeir og eldklárir svo mikið er víst.

Markmiðið stjórnvalda með frjálsa -framsalinu 1990 var að stuðla að hagræðingu og ekki síst að minnka flotann sem talinn var allt of stór. Til að svo mætti verða fylgdi frjálsa-framsalinu sérstök skattkerfisbreyting sem kom þeim sérlega vel sem betri aðgang höfðu að bankakerfinu. Öll kvótakaup var þá hægt að eignfæra og afskrifa 20% á ári - og koma sér þannig hjá því að borga 45% tekjuskatt sem þá var. Afskriftirnar lækkuðu smá saman og enduðu í 6 % árið 2003. En þá var líka nær öll “hagræðingin” um garð gengin hjá stórútgerðinni eins og við þekkjum hana í dag. Megnið af þessum viðskiptum fór einnig fram á genginu +/- 200 kr. kílóið sem í dag er metið á nálægt 3.000 kr. Þess eru dæmi að þeir sem bestan aðgang höfðu að bankakerfinu og duglegastir voru að afskrifa borguðu nær engan tekjuskatt á þessu tímabili – Skatturinn sá sem sagt um að borga nýju heimildirnar.

Einstakur árangur?

Þá segir Brynjar að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi reynst vel, sjálfbært kerfi öfugt við það sem gerist hjá öðrum fiskveiðiþjóðum. Þegar samdráttur í heildarafla frá aldamótum til dagsins í dag er borinn saman við heildarafla í Noregi og fiskveiðiþjóða innan ESB, þá er samanburðurinn okkur ekki hagstæður. Með öðrum orðum þá hefur samdráttur í heildarafla verið umtalsvert meiri hjá okkur en þeim yfir sama tímabil.

Á 25 ára tímabili frá árinu 1950 til 1975 var þorskaflinn að meðaltali 438 þúsund tonn. Það var svo í kjölfar Svörtu skýrslu Hafró árið 1975 sem markviss "uppbygging” á okkar helstu fiskstofnum hófst. Eftir 35 ára svo kallaða uppbyggingu er árlegur þorskafli nú aðeins liðlega 200 þúsund tonn - og á niðurleið samkvæmt nýju stofnmati Hafró.

Við erum þar fyrir utan nær alveg búin með loðnuna, innfjarðarækjuna, úthafsrækjuna, humarinn, úthafskarfann, djúpkarfann, hlýrann, skötuselinn og mest allan flatfisk allt í kringum landið.. Þetta er sagt vera "einstakur árangur” og því ekkert skrítið að aðrar þjóðir séu sagðar horfa öfundaraugum til okkar.

 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag 10 júní 2020.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

floyde

Höfundur

Atli Hermannsson.
Atli Hermannsson.

Ég er fæddur og uppalinn Akureyringur, búsettur í Kópavogi. 

metaco@simnet.is

Sími 897 8060 

Tónlistarspilari

Allman Brothers Band - Whipping Post
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 08.19.Nordvag02c
  • 08.19.Nordvag02c
  • CAM00620
  • JB23
  • JB22

Tónlist

Tónlist


Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband