24.11.2008 | 19:04
LÍÚ hótar.
Hér á eftir kemur grein sem ég skrifaði um daginn í tilefni af ársfundi LÍÚ og birtist í Morgunblaðinu 31. október. Hún á vel við núna.
NÚ þegar flest samtök atvinnulífsins hafa lýst áhuga á að viðræður verði hafnar við ESB eða upptöku evrunnar þá er yfirlýsingar þess efnis ekki að vænta frá samtökum útgerðarmanna. Ársfundur LÍÚ var haldinn í þessari viku og sagði Björgólfur Jóhannsson í ræðu sinni að hagsmunir Íslands væru best tryggðir utan ESB, sem hefði rekið þveröfuga fiskveiðistefnu við Ísland. Við erum á hnjánum, halda menn í einlægni að það sé einhver hundalúga á hurð Evrópusambandsins?" Af útgerðarmönnum er það annars helst að frétta að erfiðlega hefur gengið að færa gjaldeyri til landsins og viðskiptasambönd erlendis gætu verið að tapast af þeim sökum - sökum krónunnar. Þá hafa heildarskuldir útgerðarinnar líklega verið að hækka um 60 milljarða á sama tíma og útflutningsverðmætin aðeins um 20 milljarða.
Samtök útgerðarmanna hafa ekki viljað ljá máls á ESB-aðild og í raun fundið fiskveiðistjórn sambandsins allt til foráttu - um leið og þau hafa dásamað árangurinn af besta fiskveiðikerfi í heimi".
Hundalúgan.
þegar skoðað er ofan í kjölinn kemur í ljós að íslenskar útgerðir hafa engu að síður komið sér vel fyrir á ESB-svæðinu. Ber fyrst að nefna í Skotlandi, England og Þýskalandi. Þá eru íslenskar útgerðir að veiða þorskkvóta Breta í Barentshafi ásamt því að eiga stærsta uppsjávarveiðiflota ESB og veiða kvóta Spánverja undan vesturströnd Afríku. Þá eiga Íslendingar tvær af stærstu fiskvinnslum Þýskalands og megnið af togaraflota Bretlandseyja. Því er von að spurt sé hvað valdi andstöðu LÍÚ gegn ESB.
Það sem helst hefur verið nefnt er að fiskveiðistefna ESB henti ekki hér við land - og þar við situr. Því ber þess að geta að bandalagsþjóðum er í sjálfsvald sett hvaða fiskveiðikerfi þær nota. Hvort heldur kvótakerfi að okkar fyrirmynd eða dagakerfi að hætti Færeyinga. Því er í raun ekkert til sem heitir fiskveiðikerfi" ESB í okkar skilningi.
En þegar fiskveiðistefna ESB er skoðuð kemur í ljós að hún á aðeins við um sameiginlega fiskstofna bandalagsríkja, fiskstofna þar sem tvö eða fleiri ríki eiga sögulegan nýtingarétt eða af landfræðilegum ástæðum. Hvorugu er til að dreifa hér við land. Þó fengu Belgar 3.000 tonna karfakvóta hér á grundvelli EES-samningsins, en það var fyrir veittan stuðning í þorskastríðunum. Síðast er fréttist mun þýsk útgerð í eigu Íslendinga hafa verið að veiða þennan karfakvóta.
Þá segir LÍÚ að við munum missa hið svokallað forræði yfir auðlindinni og að allar ákvarðanir um heildarafla hér við land verði teknar í ráðherraráði ESB. Það er rétt að endanleg ákvörðun (staðfestingin) verður tekin þar...en að undangengnu ákveðnu ferli sem vert er að skoða nánar.
Allt hurðalaust.
Varðandi ákvarðanir um heildarafla, eða svokallaða ríkjakvóta sem teknar eru af ráðherraráði ESB. Ber þess fyrst að geta að allar eru þær teknar að undangengnum rannsóknum og að tillögum færustu fiskifræðinga". Í öllum tilfellum eru það fulltrúar Alþjóðahafrannsóknarráðsins ICES sem aðsetur hefur í Kaupmannahöfn sem það gera. ICES eru samtök fiskifræðinga og annarra vísindamanna líkt og þeirra sem vinna hjá Hafró. Að ICES standa 20 ríki við norðanvert Atlantshaf og er Ísland eitt þeirra. Þetta er samráðsvettvangur þar sem nær allar ákvarðanir um nýtingu fiskstofna í Norður-Atlantshafi eru teknar. Hvert ríki á tvo fulltrúa og koma okkar fulltrúar frá Hafró. Það er þess vegna sem fiskifræðingar frá Hafró bregða sér til Kaupmannahafnar að loknu hinu árlega stofnmati nytjastofna hér við land, sem kallast togararall. Það er því ekki fyrr en að loknum samráðsfundi Hafró og ICES að Hafró sér sér fært að kynna þjóðinni tillögur sínar um heildarafla næsta árs.
Því er von að spurt sé hvað muni eiginlega breytast við inngöngu í ESB. Hafi LÍÚ eitthvað við nýtingastefnu ESB (Hafró) að athuga - liggur beinast við að þeir beiti fulltrúum sínum innan stjórnar Hafró til þess.
Höfundur er fyrrverandi veiðarfærasölumaður.
LÍÚ hótar úrsögn úr SA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 43271
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
LÍÚ hótar úrsögn úr SA, hverjum er ekki sama,væri best að þeir færu úr lýðveldinu Ísland líka!
Konráð Ragnarsson, 26.11.2008 kl. 21:58
Sæll Atli.
Ég trúi því nú ekki fyrr en ég tek á að þú ætlir að fara að mæla tillögum ICES bót, nægir þar að nefna reynslu frænda okkar Færyinga.
Hvað varðar afstöðu LÍÚ varðandi Evrópuáróðurinn sem SA og aðrir standa fyrir er afstaða þeirra mjög skiljanleg.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 1.12.2008 kl. 00:36
Sæl Guðrún. Þú sérð hvergi í minni grein að ég sé að mæla ICES bót. Ég er bara að benda á að i raun og veru höfum við ICES í gegnum Hafró. Það er er enginn munur á ef þú skoðar málið - því Hafró er bara óvart ein af þeim vísindastofnunum sem mynda ICES hópinn og ekkert öðruvísi. Sömu nýtingareglurnar og og sömu ráðin. Því er ég alltaf að segja að það muni ekkert breytast hvað þann þátt varðar eftir inngöngu í ESB... nákvæmlega ekkert.
Atli Hermannsson., 1.12.2008 kl. 07:48
Það er einhver ástæða fyrir því að fiskimið innan ESB eru mjög víða í verra ásigkomulagi en hér við land. Sannarlega veitir ICES á hverju ári ráðleggingar, sem ráðherraráðið fer eftir af því leiti sem það fer að jafnaði eftir þeirra ráðleggingum, þ.e. að litlu leiti.
Þó að við Íslandsmið hafi árum saman oft verið veitt nokkuð meira en Hafrannsóknarstofnun hefur mælt með, hefur bilið milli ráðlegginga ICES og ákvarðana ráðherraráðsins, ég treysti mér að fullyrða, verið töluvert meira. Augljóslega, yrði sjávarútvegsráðherra Íslands þar innan ætíð með í veikri stöðu.
En skiptir það nokkru máli? Það er augljóslega rétt, að framan af myndi sennilega vera litlar veiðar erlendra fiskiskipa hér við land, og sennilega um lítil afskipti annarra sjávarútvegráðherra ESB af ákvarðanatöku um fiskveiðar hér við land. Þannig aðvilji Íslandsráðherra yrðu vilji ráðherraráðsins alls í því máli, svona nokkur veginn sjálfvirk.
Þetta myndi eiga við, svo lengi sem hagsmunaaðilar innan annarra meðlima landa ESB, sægju ekki ástæðu til að þrýsta á um aðra ákvarðanatöku, en íslenskum sjávarútvegsráðherra þætti hagfeldast.
Það sem er verið að tala um, er að líkur á að erlendir sjávarútvegs hagsmunir eignist verulegan hluta í íslenskum útgerðum, og þannig verulegan íslenskan kvóta, með tíð og tíma. Eins og allir vita, þá er með ESB aðild ekki tjaldað til einnar nætur, og þess vegna skiptir máli hvaða langtíma þróun sé líkleg.
Málið er, að þegar stórir aðilar í sjávarútvegi innan annars aðildalands ESB en Íslands, aðildarlands sem hefur fleiri atkvæði heldur en Ísland í ráðherraráðinu, hefur eignast umtalsverðan kvóta hér við land, munu þeir verða líklegir til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanatöku ráðherraráðsins varðandi kvótaúthlutun hér við land. En löng hefð er fyrir því, að áhrifaaðilar í sjávarútvegi innan samandsins, beiti sér innan nefnda ráðherraráðsins, reini að hafa áhrif á sinn ráðherra á innlendum pólítískum vettvangi, o.s.frv.
Ertu algerlega viss, treystirðu þér til að lofa því alveg 100%, að það geti ekki gerst, þegar til langrar framtíðar er litið, að ráðherraráðið taki aðra ákvörðun en ráðherra Íslands beiti sér fyrir, vegna þess að sjávarútvegshagsmunir í landi ráðherra - sem fyrir landi fer sem hefur fleiri atkvæði en Ísland - hefur sannfært þann ráðherra um að það sé pólítísk jákvætt fyrir hann að beita sér fyrir að meira verði veitt á Íslandsmiðum, ráðherra Íslands vill.
Þetta er schenarioið sem LÍÚ hefur í huga. Ekki, koma fram með það grín, að þetta sé hreint bull.
Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason, 3.12.2008 kl. 02:04
Sæll Einar og takk fyrir málefnalegt innlegg.
Þú spyrð mig hvort ég geti verið alveg 100% viss - sem ég er ekki..Þar fyrir utan virkilega fátt sem við getum verið algerlega vissir um í sambandi við útgerð á Íslandi.
En ég hef alltaf sagt að ef ráðherraráðið ætlar að ganga gegn tillögum okkar ráðherra sem byggir ákvörðun sína á vísindalegu mati Hafró á ástandi fiskstofna, þá veit ég ekki hvaða gögnum eða rökum ráðherraráðið gæti beitt fyrir sig. Þeir ganga því aldrei gegn því með ekkert í höndunum -nema einhvern þrísting. Geri þeir þaðhins vegar má alveg eins spyrja sig hvort í því gæti ekki alveg eins legið ávinningur fyrir okkur. Af hverju ætti ráðherraráðið að taka einhverja þá ákvörðun sem myndi ganga gegn okkar hagsmunum? Það hefur heldur ekki allt verið gáfulegt sem hér hefur verið gert. Þá sé ég ekki að þó svo að athugasemdir yrðu gerðar í einstökum málum að það geti spilað stóra rullu. Afkoma útgerðarinnar ræðst aðallega af öðrum þáttum sem við ráðum enn minna viðvið eins og... olía, afurðarverð og gengismál svo eitthvað sé nefnt.
Varðandi "hættuna" á að erlendir aðilar eignist útgerðirnar í landinu.. þá opnast þær dyr að sjálfsögðu upp á gátt eftir inngöngu í ESB. En þess má geta að þær hafa staðið hálfopnar í gegnum EES samninginn upp á 49,5% án þess að nokkur hafi notfært sér það hingað til - nema við höfum gert það erlendis.
Varðandi það að útlengingar muni ef til vill komast yfir veiðiheimildir í gengum fjárfestingar sína í útgerðarfélögum spyr ég afur á móti. Er líklegt að útlendingar sjái sér hag í því að fjárfesta í útgerð á íslandi sem skuldar fjórfalda ársveltu sína og að uppistaðan í eigninni séu veiðiheimildir sem samkvæmt lögum er sameign íslensku þjóðarinnar - að þeim sé aðeins úthlutað til eins árs í senn og myndar ekki eignarétt? En til að "tryggja" enn frekar eignarhaldið á auðlindinni er ráðlegt að setja það í stjórnarskránna áður en lengra er haldið.
Um eitt getum við þó verið alveg vissir um Einar, að það munu engir erlendir flotar sigla hingað eins og sumir vilja vera láta og óttast alveg ógurlega - það er alger fjarstæða.
Atli Hermannsson., 3.12.2008 kl. 10:03
Tja, eins og ég sagði fyrst, er ástæða fyrir því að fiskimið ESB eru í mun verra ástandi en fiskimið við Ísland. Ég, held að það þurfi ekki að vera neinn ágreiningur um þann punkt.
Þó svo að ákvarðanataka okka manna, hafi ekki verið fullkomin, þá - ef mið er tekið af því að fiskistofnar á ESB miðum eru almennt í mun verra ástandi og - ef mið er tekið af því að af öllu jafnaði virðist bilið milli ákvarðana ráðherraráðsins og ríkisstjórna Íslands og ráðlegginga viðkomandi sérfræðinga, hafa verið mun breiðara að öllu jafnaði, sbr. nýleg ákvörðun um úthlutun kvóta um túnfisk á Miðjarðarhafi - þá má alveg segja að nokkrar líkur séu á að ráðherraráðið gæti tekið ákvörðun, sem okkar ráðherra þætti ekki skynsamleg.
Það þarf að hafa í huga, að staða sjávarútvegs er nokkur önnur í ESB löndum, þar sem sjónarmið að viðhalda störfum á jaðarsvæðum virðast oft hafa orðið ofan á sjónarmiðum um verndun. Hugsanlega, er líka einhverju um að kenna að ákvarðanataka fer fram í Ráðherraráðinu...það geri einstaka ráðherrum auðveldara um vik um að forðast gangríni fyrir slæmar og óskinsamlega ákvarðanir, á meðan að ráðherrar hérlendis, eru þrátt fyrir allt, miklu nær málum.
Ráðherra annars lands, getur einfaldlega rökstutt að úthlutun um meiri afla, en ráðherra Íslands telur heppilegt, muni ekki ganga gegn hagsmunum Íslands, þar sem tekjur muni aukast fyrir Íslendinga, störfum fjölga. Það, að á sama tíma, aukist tekjur útgerðaraðila í hans heima landi, sem hefur verið að beita hann þrýstingi, væri þá að sjálfsögðu hrein tilviljun.
Aðalspurningin, er þá hvort að líkur séu að útlendingar komist yfir veiðiheimildir hér við land. Ljóst er að LÍÚ er þeirrar skoðunar. Ef við treystum þeim, til að vera a.m.k. færir um að gera rétt stöðumat á eigin hagsmunum, og forðums þá ódýru afgreiðslu að þeir fari með vitleysu. Þá, get ég bent þér á, þar sem þú bendir á skuldir þeirra fyrirtækja, að nákvæmlega sú skuldastaða - ef maður hefur í huga eðli verðs í fyrirtækjum almennt - frekar augljóslega lækkar verðgildi fyrirtækja þeirra, og þannig auðveldar hugsanlega yfirtöku. Ef fyrirtæki er á hlutabréfamarkaði, getur hún verið svokölluð óvinveitt, en slík yfirtaka felur í sér að efnaður aðili býður yfirverð í meirihluta hluta í fyrirtæki, gegn vilja stjórnenda.
Ef fyrirtæki hefur mjög lítið eigið fé, þ.e. skuldir er nánast eins miklar og eignir, þá eru verðgildi hluta í slíku fyrirtæki að öllu jafnaði mjög lágir. Þarna eru kvótakóngarnir að súpa seyðið af því að hafa tekið þátt í fjárfestingaveislunni, sem átti sér stað undanfarin ár, en þeir eins og margir gömbluðu með svokallaðar fjárfestingar, skuldsettu fyrirtækin sín fram úr hófi, notuðu það fé til fjárfestinga, sem að ég held að megni til séu tapað fé í dag. Eftir sitja fyrirtækin með miklar skuldir, sem að mestu var ekki stofnað til vegna rekstrar þeirra. Þessar skuldir, gera fyrirtækin - eins og ég er að gefa í skyn - veikari fyrir ella gagnvart yfirtöku. Þannig, aðkvótakóngarnir sjá fyrir sér, að líkurnar séu að þeirra mati verulegar að þeir missi fyrirtækin sem þeir enn eiga úr höndunum. Þannig, sé afstaða þeirra rökrétt mat þeirra á eigin hagsmunum.
Síðan, eftir að útlendingar hafa eignast hlut, gildir að sjálfsögðu jafnræðisregla innri markaðar ESB, þannig að stjórnvöld hafa engan kost en að koma eins fram við fyrirtæki í þeirra eigu, sem hafa ráðið yfir ákveðnu hlutfalli afla, en ef þau hefðu áfram verið í eigu Íslendinga. Annars myndu þau eiga Evrópudómsstólinn yfir höfði sér.
Hægt væri hugsanlega að innkalla allar veiðiheimildir jafnt, en við einhverskonar endurúthlutun, yrði aftur að gæta jafnræðisreglunnar.
Síðan, er náttúrulega spurningin, hversu miklu máli þetta allt skiptir. Ef til vill, er það einfaldlega stöðumat margra, að hagsmunir sjávarútvegsins séu einfaldlega ekki stærsta málið í þessu samhengi.
Við skulum samt, muna að Norðmenn hafa tvisvar sókt um aðild, og tvisvar hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef nýlegar skoðanakannanir eru hafðar í huga, þá nýtur sjálf umsóknin um aðild, mikið meira fylgis en sjálf aðildin. Mín túlkun á því, er að margir kaupi í dag þá röksemd að rétt sé að reyna hvað við fáum úr samningum, og að það ráðist svo hjá mörgum hvernig samningurinn verður hvaða afstöðu þeir taka til hans.
Kreppan, hefur á ný aukið áhrif sjávarútvegs hérlendis, enda skapar hann gjaldeyri. Þannig, að andstaða LÍÚ, er ekki lítill hlutur. Í dag, eru kvótakóngarnir, sennilega, aftur orðnir valdamestir einstakra aðila hérlendis.
Ég held, að í ljósi veikleika þeirra, verði andstaða þeirra mjög hörð, harðari en annars ef eitthvað er, og þeir muni beita öllum brögðum til að sannfæra landann um að hafna ESB aðild. Ég tel að í ljósi þessa, minnki andstaða þeirra verulega líkurnar á að aðildarsamningar verði samþykktir.
Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason, 3.12.2008 kl. 11:33
Sæll Einar, ég hef bara ekki verið við að undanförnu. En í sem fæstum orðum þá sé ég ekki sérstaka "hættu" því samfara að einstakar útgerðir skiptu um eigendur - annað eins og það hefur áður gerst. Stöðumat LÍÚ ara er ekki á vetur setjandi. Þessir menn eru eingöngu að hugsa um sjálfan sig rétt eins og þeir hafa alltaf gert. Þetta er kunningja-kreðsu-samfélag og útfyrir það horfa þeir ekki. Þó eignarhaldið breyttist sé ég ekki að útgerðarformið ætti að breytast við það eitt. Það gilda áfram sömu fiskveiðilög og annað sem því tilheyrir. Þá hverfur fiskurinn ekki með breytti eignarhaldi né að sjómannasamningar verði feldir úr gildi. Hversu mikil hætta væri á óvinsælum ákvörðunum hjá ráðherraráðinu... þá geri ég ráð fyrir því að þær verði alltaf óvinsælar og umdeildar rétt eins og allar ákvarðanir sjávarútvegsráðherra sem ég man eftir.
En ég er bara ekki sammála því að flestir fiskstofnar Evrópuþjóða séu í eins lélegu ástandi eins og margir vilja vera láta. Þeir eru að sjálfsögðu æði misjafni rétt eins og okkar. En eitthvað eru þeir að fiska, því þegar heildarafli allra Evrópulanda er lagður saman sést að okkar hlutdeild er aðeins 10%. Og þó vægi fiskveiða sé hlutfallslega minna víðast hvar, þá veit ég eftir að hafa á 20 ára tímabili farið tugi ferða á sjávarútvegssýningar og aðrar ferðir tengdar sjáverútvegi um hálfan hnöttinn - að fiskveiðistefna ESB væri ekki þetta endalausa argaþras nema vegna þess að veiðar og vinnsla spilar töluvert meiri rullu en margir halda. Því ætti í sögu reynslunnar að vera almenn andstaða í strandhéruðunum gegn því að fá okkur í félagsskapinn.
Atli Hermannsson., 7.12.2008 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.