24.4.2007 | 17:40
Kosningakvótinn 2003
Það er fróðlegt að bera saman viðbrögð forkólfa Sjálfstæðisflokksins við lélegri útkomu úr nýjafstöðnu togararalli og viðbrögðum þeirra fyrir fjórum árum. En þá var þorskkvótinn 179 þúsund tonn. Samkvæmt togararallinu sem þá var nýlokið hækkaði stofnvísitala þorsks um 9% En hún hafði þá ekki hækkað í mörg ár þar á undan. Samkvæmt 25% aflareglu Hafró var því að vænta 15 þúsund tonna hækkunar í þorski sem Hafró myndi samkvæmt venju tilkynna um í júní.
En þar sem Frjálslyndir höfðu gert kvótakerfið að kosningamáli - voru góð ráð dýr hjá stjórnarflokkunum. Fyrst var Halldór Ásgríms dubbaður upp þann 15. apríl í 10 fréttir Sjónvarps. Sveittur á enni og bólginn á fótum sagði Halldór: "Nú er kominn tími uppskeru, árangur verndunar og uppbyggingar er að skila sér". Þetta hefur líklegsa þótt heldur klisjukennt hjá Halldóri og því var forsætisráðherra, herra Davíð sminkaður í ofboði fyrir fréttatíma Sjónvarps. Davíð hefur sennilega ekki þótt 15 þúsund tonn nægjanlega mikið til að lokka kjósendur frá Frjálslyndum og gaf því út að þorskkvótinn yrði aukinn um 30 þúsund tonn frá og með 1. September.
Fréttamenn höfðu að sjálfsögðu ekki fyrir því að spyrja Árna Matt álits á þessu óvænta útspili, heldur brunuðu beint i Hvala Jóa. Hann varð vandræðalegur eins og venjulega, en segir yfirlýsingu Davíðs ekki óraunhæfa. Þar með var búið að gefa út 30 þúsund tonna kosningakvóta" og fullvissa kjósendur um að kvótakerfið væri "besta" fiskveiðikerfi í heimi.
Síðan eru liðin fjögur ár og stofnvísitala þorsks hefur lækkað með hverju árinu, 15% í fyrra og 17% núna. Því hlýtur Geir Haarde að tilkynna það einhvern næstu daga hvað þorskkvótinn verður skorinn mikið niður 1. september. Hafi verið ástæða til að tilkynna ákvörðunina fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum - er enn brýnni ástæða til þess núna.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 16:22
Með sápu í augunum
Ég er stundum að velta því fyrir mér hvað fær allt að 40% þjóðarinnar til að kjósa einn og sama stjórnmálaflokkinn. Eru það málefnin, ótvíræður árangur flokksins eða einhver veila í þjóðarsálinni sem veldur þessu. Málefnin virðist ekki skipta margt af þessu fólki máli, eða hvort flokkurinn hafi með lagaboði gengið á réttindi þess eða þjóðfélagshóp sem það tilheyrir - það munu alltaf kjósa Flokkinn.
Ég þekki gömul hjón sem bæði eru fædd og uppalin í sárri fátækt. Konan vissi t.d. ekki að rafmagn væri til fyrr en hún var send til frændfólks í skóla hinum megin við fjallgarðinn. Þá veit ég að karlinn man fyrst eftir sér hangandi í pilsfaldi móður sinnar sem þeyttist í kaupamennsku um landið með drenginn í eftirdragi þar til dró að fermingu. Því verður honum alltaf orða vant þegar hann er spurður hvaðan af landinu hann sé. Af þessu ætti öllum að vera ljóst að silfur-borðbúnaður var ekki að þvælast fyrir þeim uppvaxtarárin. Að þeim loknum kynnast þau, hefja búskap og skila að lokum mörgum mætum dætrunum út í þjóðfélagið. Þau lifðu alla tíð mjög spart. Þó heyrði ég að það hafi nokkrum sinnum sést til þeirra uppábúin í kvikmyndahúsi á árunum á milli 1962 og 1965.
Í dag dvelja þau í sinni blokkaríbúð og gleyma sér yfir Sápum í Sjónvarpinu á milli þess sem þau horfa og hlusta á fréttirnar. Þá meina ég alla fréttatíma, enda pólitísk - raunar ramm-pólitísk. Og þar sem ég er það einnig er umræðuefnið nokkuð fyrirsjáanlegt þegar við hittumst. Nægir að nefna sjávarútvegsmál, misrétti kynjanna, biðlista í heilbrygðiskerfinu og bág kjör aldraðra og öryrkja - sem er hópur sem þau bæði tilheyra. En ef Sjálfstæðisflokknum er hallmælt, eða hugsanlega talinn eiga þátt í bágum kjörum þeirra er eins og komið sé við kviku. Og þó ekkert aumt þau megi sjá réttlæta þau innrásina í Írak auðveldlega fyrir sér. Ástæðan er sú; að þau mega ekki fyrir nokkurn mun heyra neitt sem flokka má sem gagnrýni á Flokkinn. Það skilja fáir ef nokkur afstöðu þeirra sem til þeirra þekkja. Það er eins og einhver afneitun sé í gangi - að þau vilji ekki horfast í augu við uppruna sinn, léleg kjör eða erfiða þjóðfélagsstöðu.... heldur kjósa frekar að samsama sig persónunum úr Sápunum.... Það er mín skoðun að það sé ótrúlega stór hluti kjósenda Sjálfstæðisflokkinn með sápu í augunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2007 | 10:47
Boðorð eitt og tvö.
Það var eins og mig grunaði, stríðsfyrirsögn Fréttablaðsins í síðustu viku um að Vestfirðingar hafi nær tvöfaldað kvóta sinn frá árinu 2001 til 2006 var blekking. Þetta er enn ein sönnun þess að fréttamenn standa sig ekki þegar sjávarútvegurinn á í hlut. Þá láta þeir sig nægja að lesa fréttatilkynningar af heimasíðum stórútgerða og áróðurinn frá LÍÚ. Þegar tölur Fréttablaðsins höfðu verið borinar saman við gögn frá Fiskistofu kom í ljós að blekkingin fólst í því, að tegundir eins og ýsa, ufsi og steinbítur sem áður voru veiddar af minni bátum í dagakerfi eru nú komnar í kvótakerfi. En mér kemur þessi framsetning sem ættuð er frá LÍÚ ekki á óvart. Það rétta í stöðunni er að landaður afli á Vestfjörðum hefur dregist saman á umræddu tímabili um 30%.
En málið er ekki alveg einfalt. Því með kvótasetningunni hljóp heldur betur á snærið hjá Vestfirðingum, þ.e.a.s. þeim útgerðarmönnum sem áður voru í dagakerfinu... Því áður höfðu þeir rétt til veiða, en nú hafa þerir öðlast rétt til að selja óveidda auðlindina og hagræða" í greininni eins og það er kallað.
En að "hagræða" er að manni skilst boðorð númer eitt hjá sjávarútvegsráðherra. Því má búast við því að minni bátum fari fækkandi á Vestfjörðum eftir aukningu á síðustu árum... og boðorð númer tvö "stöðugleikinn"... í formi stöðugrar fólksfækkunar geti þá halda áfram þar vestra.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2007 | 00:42
"jákvæð tíðindi"
Þegar sumir hlutir virka á haus er það gjarnan vegna þess að þeir eru það. En stuttu eftir að Einar Kr. sjávarútvegráðherra hafði verið tuskaður í kastljósinu í fyrrakvöld var hann borubrattari sem aldrei fyrr. Í nýju boggi sem ber öfugmæla-yfirskriftina jákvæð tíðindi úr sjávarútvegsumræðunni" byrjar hann á að segja að sjávarútvegurinn hafi aldrei þurft að heyja jafn harða samkeppni um fjármagn og unga fólkið og einmitt nú. Fjárfestar leiti í aðrar áttir og nýja atvinnugreinar freysti unga fólkið. Þá beri öllum að gæta orða sinna í gagnrýni sinni á þessa undirstöðuatvinnugrein - því ella verði sjávarútvegurinn einfaldlega undir - eins og Einar orðar það svo snyrtilega.
Einar segir að miklar breytingar hafi verið gerðar á kerfinu á undanförnum árum. Ég skal ósagt látið hversu miklar þær eru. En þær voru að mestu leiti í því fólgnar að innlima minnstu báta landsins sem áður voru fyrir utan kvótakerfið inn í minnibáta-kvótakerfi. Við þessa breytingu hefur það gerst að þeir stærstu af þeim litlu" hafa umvörpum verið að kaupa þá litlu út úr greininni. Þeir hafa einnig verið að stækka bátana og leigja til sín heimildir hvað þeir mest mega til að standa undir fjárfestingunni. Í þeim viðskiptum er mér sagt að áhafnameðlimir hafi ekki farið varhluta....Ágæti lesandi; er ekki ílla komið þegar varðhundar kerfisins telja þessi efnistök til jákvæðra" tíðinda úr greininni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2007 | 07:51
Ályktun um Sjávarútvegsmál.
Í ályktun um sjávarútvegsmál frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins stendur:"Ástand ýmissa fiskistofna er gott. Það eru hins vegar vonbrigði að ekki hefur gengið nógu vel að byggja upp suma stofna."
Þessi texti er hreint með ólíkindum, því nær allt er á niðurleið, þ.e.a.s. það sem enn hefur möguleika á því samkvæmt skýrsku frá Hafró.
Það er greinilegt að þeir sem sömdu ályktunina höfðu ekki einu sinni fyrir því að lesa fréttatilkynningu frá Hafró frá 12. apríl áður en textinn var saminn.
En í henni segir meðal annars;" Þorskur. Stofnvísitala þorsks lækkaði um 17% frá mælingunni 2006... Þetta kemur vel fram í lengdardreifingu þorsksins sem sýnir að mun minna er nú af 30-50 cm þorski en undanfarin ár... Fyrsta mat á stærð 2006 árgangs bendir til að hann sé slakur og að svipaðri stærð og 2005 árgangurinn... Árgangurinn frá 2004 mælist sem fyrr mjög lélegur... Almennt virðist stærð uppvaxandi árganga ívið minni en fyrri mælingar sýndu... Aldursgreindar vísitölur benda til að stærð veiðistofns, þyngd fjögurra ára og eldri, sé nú um 10-15% minni en áður hefur verið áætlað... Meðalþyngd 6 og 7 ára fisks mælist nú um 10% lægri og 8 og 9 ára fisks 5-10% hærri en í stofnmælingunni 2006... Meðalþyngd eftir aldri er nú um 30% lægri en hún mældist hæst árin 1994-1996.
Ýsa
Stofnvísitala ýsu var há líkt og undanfarin fjögur ár en lækkaði þó um 12% frá fyrri mælingu. Holdafar ýsunnar var fremur lélegt, einkum stóra árgangsins frá 2003.
Flatfiskar
Stofnvísitala skarkola var svipuð og árin 2004-2006, en er nú einungis rúmur fjórðungur af því sem hún var í upphafi ralls.
Við þetta má bæta að loðnustofninn er aðeins einn þriðli af því sem hann var á bilinu frá 1980-1990. Þá er innfjarðarækjan hrunin. Sömuleiðis er úthafsrækjan fyrir norðurlandi horfin.
Mér er því spurn; Ástand hvaða fiskstofna er gott að mati Einrs Kr. sjávarútvegsráðherra? Hann lætur þess getið á bloggsíðu sinni að 120 manns hafi komið að undirbúningi að ályktun landsfundar. Að það sé lýðræðislegara en hjá nokkrum öðrum flokki. En hvernig skildi starfshópurinn hafa verið valinn. Fyrir næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins legg ég til að fólkinu verði skipt upp í tvo jafnstóra hópa - og annar hópurinn hafður á lyfleysu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2007 | 10:25
Ályktun um "neysluvöru"
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2007 | 01:22
Landsfundir kvótaflokka.
Um þessar mundir standa yfir landsfundir Samfó og Sjalla. Af því tilefni kemur hér hluti úr grein sem ég skrifaði fyrir réttum fjórum árum, en er sem ný.
"En því miður eru þeir alþingismenn teljandi á fingrum annarrar handar sem eru vel að sér um fiskveiðistjórnarmálin. Nokkrir vita nær ekkert og svo eru aðrir hreinir og klárir bjánar sem hvorki hafa vilja né getu til að kynna sér málin. Þannig er það og þannig vilja þeir hafa það sem hafa töglin og halgdirnar á bak við tjöldin (hinir ósnertanlegu). Þetta eru flestir af fórkólfum stærstu útgerða landsins sem hafa töglin og hagldirnar í LÍÚ, en sá kolkrabbi teygir áhrif sín um allt stjórnkerfið í gegnum Hafró, ráðuneytið og inn á Alþingi.
En hvernig má það gerast? Þegar félagstarf stjórnmálaflokka er skoðað á landsbyggðinni kemur í ljós að frammámenn flestra stjórnmálaflokka eru kvótaeigendurnir sjálfir í viðkomandi plássi eða þeirra nánustu. Aðeins örlar á mönnum frá stærstu þjónustufyrirtækjunum sem eiga allt sitt undir því að þóknast þeim. Landsfundir eru síðan á um tveggja ára fresti og því nokkuð ljóst hverjir fá að sýna sig og sjá aðra þar. Þar hitta þeir félaga sína og fulltrúa hluthafa sem gjarnan eru forkólfar sjóða - olíu- og tryggingafélaga sem síðan marsera í takt og taka upp alla stólana í sjávarútvegsnefndinni. Álpist þangað einhver "sérvitringurinn" er honum góðlega klappað á öxl, boðinn drykkur og spurður hvort allt sé nú ekki í góðu lagi. Svo eru það hinir sem enga þekkingu hafa á málunum og gangast upp við að fá að standa við hliðina á "stórmennunum" - þó ekki sé nema þegar þeir míga.
Síðan fara allar samþykktir til sjávarútvegsnefndar Alþingis sem gerir út um málin með lögformlegum hætti. En vegna þeirra sem kunna að malda í móinn og þurfa að geta horft kinnroðalaust framan í sveitunga sína, eru samþykktar sértækar aðgerðir til að lina sárustu verki smælingjanna."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2007 | 09:16
Hringkvóti.
Það stóð á forsíðu Fréttablaðsins í gær að Vestfirðingar hafi bætt við sig kvóta frá árinu 2001 eftir að hafa selt hann frá sér árin þar á undan. En á fréttinni var ómögulegt að átta sig á því hvort þetta eru aðkeyptar heimildir, eða tilkomið vegna þess að það er búið að setja í kvóta tegundir sem ekki voru þar fyrir nokkrum árum. Nægir að nefna ýsu og steinbít.
Hafi heimildirnar verið keyptar hefur það örugglega verið gert fyrir lánsfé og aukið með því skuldir útgerða á Vestfjörðum - sem tæplega var á bætandi. Þeir sem seldu Vestfirðingum þessar heimildir hafa væntanlega hagnast á viðskiptunum og farið með hagnaðinn úr greininni - eins og siður er. En þar sem vita-vonlaust er að gera út á þetta kvótaverð spyr ég; af hverju selja Vestfirðingar ekki heimildirnar aftur? Það hlýtur að fara að styttast í það. Því sennilega hafa þeir keypt kílóið á í kringum 2 þúsund krónur en er nú komið í 3 þúsund.
Með því vinnst margt. Þeir innleysa gríðarlegan hagnað og geta farið með hann úr greininni - eins og siður er. Þá getur td. stöndug stórútgerð með því aukið skuldir sínar og komið i veg fyrir hagnað, greiða skatta og haldið áfram að afskrifa kvótakaup hjá sér um 6%... eins og siður er. Svo þegar það er búið þá hafa varanlegar heimildir væntanlega hækkað enn meira og því mjög líklegt að fleiri vilji selja - innleysa hagnað eins og siður er. Svona getur hring(orma)vitleysa haldið áfram að óbreyttu um ókomin ár.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2007 | 15:42
Sverrir og ESB.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2007 | 21:36
Vitringarnir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar