8.5.2007 | 21:10
Lausn í atvinnumálum Bolvíkinga?
Í Kastljósi í kvöld var lítillega komið inná kvótakerfið. Kristján Þór var t.d. að botna svar Valgerðar varðandi staðbundin vandræði í atvinnumálum og Bolungavík hafði verið nefnd í því sambandi. En stærsti vinnuveitandinn á staðnum var að loka í vikunni eins og kunnugt er. Kristján Þór sagði að það væri t.d. ekki lausn að taka kvóta af Seyðfirðingum og flytja vestur. Ég skil orðið lítið í Kristjáni sem er að horfa á Brim flytja frá Akureyri án þess að bæjarstjórnin fái nokkru um það ráðið. Það þarf ekki að taka eitt né neitt af austfirðingum og flytja vestur - kvótinn getur þess vegna allur farið vestur... og þá í frjálsum viðskiptum eins og það er kallað... það er braskið sem ræður því.
Í ljósi orða Kristjáns Þórs, er einnig forvitnilegt að velta fyrir sér ummælum Einars Kr. sjávarútvegsráðherra fyrir nokkrum dögum síðan. En þar sagði Einar eftir að hafa verið spurður útí vandræði Bolvíkinga. Að Bolvíkingar hafi nú verið að bæta við sig kvóta. Kvótinn munu þá væntanlega hafa komið einhvers staðar frá... ekki satt. Jú, hann koma frá Ísafirði. Og það drep-fyndna við þessi ummæli sjávarútvegsráherra er að heimildirnar eru að koma með nokkrum litlum bátum sem að verulegu leyti hafa verið gerðir út frá Bolungavík í mörg ár. Það þarf ekki einu sinni að breyta einkennistöfunum á bátunum... og þá verður beitingafólkið væntanlega það sama...... hafðu þakkir Einar, þú ert snillingur þegar lausnir í atvinnumálum eru annars vegar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 22:30
Bréf til Didda á Bakka.
Kristinn Pétursson á Bakkafirði er fyrir löngu landsþekktur fyrir áratuga skrif um sjávarútvegsmál. Hann bölsótast eðlilega yfir rangri fiskveiðistjórn sem gæti skilað miklu meiru. Hann hefur svo sannarlega margt við kvótakerfið að athuga og beinir jafnan spjótum sínum að Hafró. Í nýjum pistli á blogginu lætur Kristinn móðan mása. En í svari hjá honum lætur hann að því liggja, að enginn flokkur hafi það á stefnuskrá sinni að gera einhverjar breytingar á fiskveiðikerfinu. Því hripaði ég niður nokkrar línur til hans þar sem mér finnst Kristinn einblína um of á Hafró, þegar allar ákvarðanir sem raunverulega skipta máli og varða alla hans gagnrýni á kerfið eru pólitískar og teknar af hans eigin flokksmönnum.
Svarið til Kristins sem ég skrifaði á bloggið hans:
Kristinn, þú segir við Hauk; "Ég er ekki að reyna að selja þér neitt. Hvernig á að taka pólitíska ákvörðun um að breyta þessu - ef enginn stjórnmálaflokkur er með það á stefnuskrá? "
Þú setur vissulega spurningamerki á eftir þessu svari þínu til Hauks. En þó það hafi farið framhjá þér, þá hefur það ekki farið framhjá þjóðinni að Frjálslyndir vilja breyta fiskveiðikerfinu all verulega. Þá kæmi mér ekki á óvart að þeir myndu stinga út úr Hafró-greninu ef þeir fengju til þess völd. En ég á verulega erfitt með að skilja það, að þú sem ert búinn að gegnumlýsa" allar skýrslur Hafró í áratugi aftur í tímann, skulir ekki sjá það að Hafró hefur sama og engin bein völd til eins né neins. Hafró er í orði vísindastofnun - en samt þó líkari trúarsöfnuði eins og þú kannast við. Þá telja þeir fiskana í sjónum og dæma um ágæti eigin gagna og skýrslna. Að lokum ráðleggur Hafró svo um heildarafla.
Annað sem snýr að fiskveiðikerfinu, svo sem hvaða fiskveiðikerfi skuli notað og hversu mikið skuli veiða er PÓLITÍSK ákvörðun. Reglugerðir varðandi tegundir og gerðir veiðarfæra er PÓLITÍSK ákvörðun. Lög og reglugerðir hvað varðar stærð og samsetningu flotans er líka PÓLITÍK. Að stórir togarar megi fiska á ákveðnum svæðum í allt að 4 mílna fjarlægð frá landi er pólitísk ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Líka að minni togarar undir 29 metrum megi fara inn að 3 mílum. Þá er Hafró ríkisstofnun, með fulltrúa ríkis og hagsmunaaðila í stjórn - ekki vísindamenn. Þannig að ég átta mig ekki á því Kristinn, hvað fær þig eiginlega til að halda að fiskveiðistjórnunin snúist um VÍSINDI.
Ef Hafró væri hreinræktuð vísindastofnun" væru þeir fyrir löngu búnir að samþykkja allt sem þú segir. Vegna þess að flest sem þú segir og skrifar um er svo ferlega logíst. Það þarf ekki vísindamenn til að skilja flest af því - en samt vilja flokksmenn þínir ekki hlusta á þig. Því finnst manni hálf sorglegt að þú skulir ekki vera fyrir löngu búinn að segja skilið við flokksfélaga þína, sem gera allt til viðhalda heimskunni og óréttlætinu sem þú ert stöðugt að gagnrýna... nema Kristinn, að þú sért í Sjálfstæðisflokknum af trúarástæðum... það gæti svo sem verið skýringin
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 08:17
Kompás
Ég sá ekki Kompás í gærkveldi heldur aðeins kynninguna á stöð 2 og bíð því eftir að sjá þáttinn á netinu. En þátturinn var um svindl í kvótakerfinu upp á þúsundir tonna og milljarða króna á ári. Sjávarútvegsráðherra segir þetta ýkjusögur en segir jafnframt að Fiskistofu standa sig vel. Fiskistofustjóri segir þetta rétta lýsingu, svindl eigi sér stað en sé ekki mikið". Forystumenn sjómannahreyfingarinnar segja þetta beina afleiðingu af kvótakerfinu. En Fiskistofustjóri segir kerfinu ekki um að kenna...það sé fráleitt,.. aldeilis ekki... við tengjum þetta alls ekki við kerfið, sagði Þórður.
Nei aðvitað er kerfið ekki kerfinu að kenna - heldur varðhundum þess. Þar á meðal Þórði Fiskistofustjóra. Því ef við værum með sókardagakerfi eins og Færeyingar þá væri Fiskistofa óþörf. Þetta lögreglubatteri sem Fiskistofa er kostar að mig minnnir 600 milljónir á ári.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007 | 23:20
Íslenska krónan.
Sumum er tíðrætt um íslensku krónuna og í dag bloggar Jón Magnússon um hana. Þá sagði góður vinur minn sem er hagfræðingur við mig fyrir fjórum árum; að ef við tækjum ekki upp evru fljótlega þá myndi atvinnulífið gera það fyrir okkur. Þá yrðu tveir gjaldmiðlar í landinu.
En það er einmitt það sem er að gerast núna. Þannig að innan fárra ára verður það bara sauðsvörtum almúganum sem enn verður snýtt með þessum snepli. Allir sem geta bjargað sér verða þá búnir að því.
Þá kemur hér hluti úr viðtali við Guðmundur Ólafsson, hagfræðing og lektor á Bifröst og við Háskóla Íslands er hann var í Silfri Egils ekki fyrir svo löngu síðan.
Guðmundur Ólafsson: Já við erum nú svona yfirleitt með fjóra mælikvarða á gjaldmiðil. Hann þarf að auðvelda viðskipti en hann þarf líka að geta varðveitt verðmæti, menn verða að geta lagt til elliáranna, menn þurfa að geta mælt hluti, þ.e.a.s. verið eining í bókhaldi og gjaldmiðillinn þarf að geta verið forsenda fyrir loforðum í framtíð, þ.e.a.s. lán.
Og við getum, við sjáum t.d. að allir þessir þrír síðustu, þessi þrjú síðustu hlutverk, þau eru bara í vindinum með krónuna. Það er ekki hægt að lána nema vera með meiriháttar reikniverk í kringum verðtryggingu til þess að það sé hægt að stunda lánastarfsemi og svo framvegis. Það er ekki heldur hægt að vera með bókhald hér öðruvísi en að vera með verðbólgufærslur út og suður í bókhaldinu sem eru feykilega flóknar. Og það er ekki heldur hægt að stunda lánaviðskipti nema það sé verðtrygging. Það er bara svona. Nú þetta er, að það skuli þurfa verðtryggingarhækju til að bjarga gjaldmiðlinum er eitt besta dæmið um það að við búum við óeðlilegt ástand. Það er bara þannig
(ég á allt viðtalið ef fleiri vilja eiga það)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 22:10
Tilkynning frá Skólplínu.net
Í tilefni af því að á laugardaginn 5. maí verður nýr og umhverfisvænn vélbúnaður tekinn í notkun við eyðingu á skólpi í 101 Skuggahverfi. Verður öllum íbúum í 101 Reykjavík boðið að vera viðstaddur. Búnaðurinn er hannaður af nýsköpunarfyrirtækinu Deepshit Ltd. Í samvinu við Impru og atvinnuþróunarfélag Bolungavíkur. Heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir, mun ræsa búnaðinn stundvíslega klukkan 14.
Búnaðurinn er að sögn Guðlaugs Þór, "hrein- bylting" samanborið við gömlu lagnirnar sem átt hafi það til að stíflast með þéttingu byggðarinnar.
Í nýja kerfinu heyrir það vandamál sögunni til. Þá verður skólpi sérstaklega safnað frá salernum íbúða og DNA greint. Því mun í framtíðinni bæði verða auðvelt að rekja og meta magn frá hverju húsi eða einstaklingi. Þetta mun að sögn Guðlaugs verða gríðarlega mikilvægt þegar rekstur skólpkerfisins verður boðinn út. En Gðulaugur vildi taka það skýrt fram að ekki stæði til að einkavinavæða skólplagnakerfið á næsta kjörtímabili.
Boðið verður upp á léttar veitingar og þá mun Þorgerður Katrín menntamálaráðherra bæði brosa og blása í blöðrur fyrir börn úr Ískakskóla. Einnig mun Valgerður Sverrisdóttir fella pólitískar keilur á milli 15-16. Vonast var til að umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz, gæti verir viðstödd vígsluna, en hún mun á sama tíma verða upptekin við að útbúa lánsumsókn fyrir ungfrú Lucia Celeste Molina Sierra, til Lánasjóðs íslenskra námsmanna........Mætið stundvíslega.
Dægurmál | Breytt 4.5.2007 kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 17:54
Nokkuð til að hafa áhyggjur af?
Ég hafði veitt því athygli að bíll merktur íslensku parkett-fyrirtæki var lagt við íbúð hinum megin við götuna þar sem ég bý. Í nokkra daga hafði ég séð tvo iðnaðarmenn bregða fyrir sem greinilega voru að vinna þar. En eftir hádegið í dag 1. mai, sá ég að iðnaðarmennir voru á staðnum. Og þar sem hurðin var opin og vélahljóðið barst út vatt ég mér innfyrir til að skoða herlegheitin. Ég spurði þá félaga hvaða viðartegund þetta væri. Það stóð ekki á svari; dzien dobry, jak sie masz.
Þetta voru sem sagt Pólverjar að vinna sé inn aura á frídegi verkalýðsins. Það fékk mig til að spyrja þá á hvaða tímakaupi þeir væru. Þeir voru ekki fánlegir til að segja mér það - heldur glottu við spurningunni. Af því dró ég þá ályktun að þeim væri bannað að ræða kaup sín og kjör.
Af öðru verki heyrði ég fyrir viku síðan, en þá var ég staddur í húsi þar sem baðhrbergið hafði verið endurnýjað. Baðið var meðalstórt og hafði verið flísalagt í hólf og gólf. Ég sá á augabragði að um 200 þúsund krónur kostar að flísaleggja bað sem þetta. En húsmóðirin sagði mér að hún hafi í gegnum íslenskt verktakafyrirtæki fengið erlendan mann í aukavinnu til verksins. Sá hefði tekið 30 þúsund krónur fyrir ómakið... Er þetta nokkuð til að hafa áhyggjur af?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2007 | 00:24
Það sem ekki var spurt um
Stjórnendur Kastjóss höfðu ekki fyrir því að spyrja Geir Haarde einnar einustu spurningar um Kvótakerfið. Eina spurning þess efnis kom frá Eiriki Stefánssyni og varðaði framsalskerfið. Eiríkur vitnaði í framsalslögin frá 1990 og spurði mjög skilmerkilega og skorinort; Er til lagaheimild frá alþingi um að útgerðarmenn megi selja óveiddan fiskinn í sjónum"
Svarið var heldur vesældarlegt. En í lauslegri þýðingu þá sagði forsætisráðherra þjóðarinnar þetta; Það er komin löng hefð fyrir kerfinu með þessum hætti... og stenst alveg lagalega að mínu mati... þar að auki hefur það skapað grunnvöll undir útgerðina sem er sterkari en nokkru sinni fyrr......Nú er svo komið að flestir hafa keypt sinn kvóta og því ekki sanngjarnt að svifta þá honum...Svo mörg voru þau orð.
En lögin um framsal aflaheimilda eru þannig til komin. Að þau áttu að gera útgerðum sem áttu fleiri en eitt skip mögulegt að flytja heimildirnar, eða einstakar tegundir á milli skipa. Til dæmis ef eitt skip útgerðarinnar væri lengi frá veiðum vegna bilunar eða endurbyggingar, að þá væri sanngjarnt og eðlilegt að geta tímabundið flutt heimildirnar til innan sömu útgerðar.
En svo vitum við hvernig fíknin í meiri hagræðingu fór vaxandi. Þannig að það sem eitt sinn átti að vera til hægðarauka er orðið að óskapnaði sem metið er í efnahagsreikningum upp á 900 milljarða, þó útflutningsverðmætið sé aðeins rúmir 100 milljarðar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2007 | 23:06
Gummi frændi og kvótinn.
Guðný frænka kom í heimsókn í dag, en hún kom fyrir nokkrum dögum að vestan eftir stutta dvöl í húsi sem hún á þar og stendur autt lungan úr árinu. Hún byrjaði að spyrja mig hvort ég hafi ekki rekist á hann Gumma frænda. Nei ég hef ekki séð hann lengi...er hann ekki fyrir vestan að róa á litla bátnum spyr ég á móti. Nei hann hefur ekkert gert frá því í haust... hann ætlaði að fara á línu í mars en hefur ekki lagt einn einasta bala ennþá. Hann fór á Vog um daginn og kannski er hann núna á Hlaðgerðarkoti, mér skilst að hann eigi að fara þangað á eftir Vogi. Hvað segirðu sagði ég furðu lostinn, ég vissi að hann sullaði smá... en var þetta virkilega orðið svona slæmt. Já sagði Guðný, það er búið að vera alveg ferlegt vesen á honum í vetur... það fór að versna síðastliðið haust eftir að kvótaverðið fór að hækka svona mikið. Nú.. er virkilega fylgni á milli verðs á þorskkvóta og alkohólisma spurði ég í hæðnistón. Jaaa.. ég veit það nú ekki, en þeir sögðu mér það bræður hans að hann væri alveg miður sín og hefði varla komið dúr á auga í vetur - nema þá í ölvunarsvefni. Þú manst það nú að hann seldi stóra bátinn fyrir tveim árum og megnið af kvótanum. Jú jú mikil ósöp Guðný, ég man það...var það ekki um sama leyti og hann keypti húsið á Spáni sagði ég án þess að depla auga. Jú einmitt... en ef hann hefði hundskast til að hanga á gamla bátnum aðeins lengur, þá væri hann að fá tæpar 200 milljónir meira núna - og kenndi Guðný greinilega í brjóst um Gumma frænda sinn.
Dægurmál | Breytt 29.4.2007 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2007 | 16:45
ferlega leiðinlegur.
Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að vera með leiðindi í kvöld. En ég er í vinahópi sem hittist stundum af ýmsu tilefni. Nægir að nefna villibráðakvöld, útilegu, utanlandsferðir eða dansleik á Sögu í kvöld - original og uppá gamlamátann. Ég ætla nú ekki að vera með leiðindi þar. Heldur hittumst við um átta leytið í heimahúsi og brögðum á föstu og fljótand.
En málið er að faðir húsbóndans var að selja bátinn sinn í vikunni eftir áratuga útgerð. Látum það vera þó gamli maðurinn vilji hætta og slaka á síðustu árin. Því oft hefur verið bast á útgerðinni þó stundum hafi verið þokkalegur hlutur. En við það að hætta að veiða eignast gamli maðurinn 1 milljarð króna fyrir að selja fisk sem er að sögn í eigu þjóðarinnar. Ekki ætla ég að kenna þeim gamla hvað þá syni hans um kosti" kvótakerfisins. En það gæti slegið á gleði sumra ef umræður beindust að því - að fyrr í vikunni hafi 250 milljónir dottið án fyrirhafnar inn um bréfalúguna á þessu húsi - fyrirfram greiddur arfur.
Dægurmál | Breytt 28.4.2007 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2007 | 22:51
Loksins gefur Mogginn sig.
Þar kom að því að Mogginn gæfi sig. En í dag var grein eftir Hjört Gísla, blaðamann á Mogganum sem bar yfirskriftina " Minna af fiski á togveiðisvæðum."
Ég hef frá árinu 2002 skrifað pistla um skaðsemi dregina veiðarfæra (botntrolla) á lífríkið og líklegan þátt þeirra í lélegri afkomu okkar helstu nytjastofna. En ég hef ekki fyrr orðið þess var að Mogginn hefði nokkrar áhyggur af því - enda helsta málgagn LÍÚ - sem dregið er áfram" af togurum. En það ber að fagna þessum sinnaskiptum.
Hjörtur segir að vísindamenn sem hafa rannsakað upptökur af leirbotni undan sunnanverðri strönd Oregon hafa séð að á þeim stöðum, þar sem merki sjást um togveiðar, er bæði minna af fiski og fiskitegundir færri en á óröskuðum svæðum. Aðrar rannsóknir á heimsvísu sýna fram á skemmdir á lífríki botnsins af völdum botntrolls
Endurskoðun á myndböndum frá árinu 1990, sem tekin voru úr mönnuðu köfunartæki á svæði sem þekkt er undir nafninu Coquille Bank (skeljabanki), sýndi að á þeim stöðum þar sem merki voru eftir togveiðar voru 20% færri fiskar, 30% færri fiskitegundir og sex sinnum minna af hryggleysingjum eins og kröbbum.
Svæði sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna veiða virðast hýsa meira af hræætum eins og krossfiski og kröbbum, sem gætu hafa verið að sækja í botndýr, sem hafa misst skjól sitt vegna veiðanna
Þessar tilvitnanir þurfa í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart. Því ef jarðýta stytti sér leið yfir lóðina hjá þér... þarf ekki að rannsaka hvort hún hafi farið þar yfir... heldur aðeins hversu miklar skemmdirnar eru.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar