Færsluflokkur: Dægurmál
25.12.2018 | 20:15
Vilja sérlög um makrílinn.
Félag makrílveiðimanna er félag um sérhagsmuni nokkurra útgerða sem færðar voru sérstakar aflaheimildir "á silfurfati" með reglugerð frá því í maí mánuði 2015. Það var eftir að ríkistjórnin með Sigurð Inga, sem sjávarútvegsráðherra hafði reynt að lögsetja makrílveiðarnar. 691.mál, þingskjal 1165. En vegna almennrar andstöðu og undirskrifta m.a. 48 þúsund landsmanna gekk lagafrumvarpið ekki í gegn. Því er makrílveiðum í dag stjórnað með reglugerð Nr. 523/2015 sem í öllum atriðum er samhljóma lagafrumvarpinu og hefur árlega endurnýjast óbreytt.
Í kaflanum um veiðar smábáta kemur fram hvað smábátar mega veiða mikið af makríl og voru bátarnir þegar mest lét í heildina 121 árið 2014. Í félagi makrílveiðimanna eru aðeins 20 smábátar með yfir helmig allra veiðiheimilda. Því þarf ekki að koma neinum á óvart að það eru þeir sem standa að þessu félagi. Það voru þeir sem klufu sig úr Landsambandi Smábátaeigenda sem lagðist alfarið gegn kvótasetningu á makríl. Það gátu þeir sem að þessu sérhagsmunafélagi standa ekki sætt sig við. Það skal tekið fram að nokkrir þeirra sem þar eru í forsvari fá miklu meiri heimildir en þriggja ára veiðireynsla þeirra sagði til um. Í lagafrumvarpinu frá 2015 er það sérstaklega tekið fram að nokkrum tilteknum útgerðum skuli umbunað með 43% auka heimildum umfram þeirra veiðireynslu og eru það þeir hagsmunir sem nú á að berjast fyrir að sett verði sérstök lög um.
Það ætti öllum að vera ljóst sem fylgst hafa með stjórn fiskveiða að sjaldan er ein báran stök. En að það skuli hafa ratað í lagafrumvarp árið 2015 og síðan reglugerð að nokkrum tilteknum einstaklingum skulu úthlutað 43% meiri aflaheimildir í makríl en veiðireynsla þeirra sagði til um, er einstakt þegar kemur að úthlutun veiðiheimilda.
Í reglugerðinni segir að tilteknum einstaklingum skuli umbunað vegna framlags þeirra við þróun á þeim veiðibúnaði og þeirri veiðitækni sem notuð er við makrílveiðar smábáta á Íslandi. Hið rétta er að þeir hafa ekki þróað eitt né neitt; búnaðurinn er í einu og öllu norskur og hafði verið í notkun á skipum í Noregi í fimm ár áður en hann barst hingað til lands.
En hvernig má það gerast að í lagafrumvarp rati lygi og ómerkilegheit eins og þessi? Jú, kaflinn um veiðar smábáta má nokkuð öruggt telja að hafi verið saminn af einum af þeim einstaklingum sem mest hafa haft sig í frammi hjá þessum litlu sérhagsmunasamtökum. Þeir höfðu að ég veit greiðan aðgang að Sigmundi Davíð og Sigurði Inga sem þá var sjávarútvegsráðherra. Öðruvísi hefði þessi gjörningur aldrei getað átt sér stað. Í einni umsögninni við lagafrumvarpið er þess sérstaklega getið að búnaðurinn sé norskur og þetta ákvæði beri að leiðrétta en allt kom fyrir ekki. Enginn hafði áhuga á að leiðrétta lygina og allir þeir sem þá voru í Atvinnuveganefnd virtust bæði vera blindir og heyrnarlausir. En þingið og þjóðin hafnaði lögunum eins og við vitum - þó þeim hafi síðan verið framfylgt með óbreyttri reglugerð af þremur sjávarútvegsráðherrum.
En nú eftir dóm Hæstaréttar er fjandinn laus og líklegt að miklar breytingar verði á makrílreglugerðinni. Félag makrílveiðimanna er því eðlilega uggandi um að hluti af þeirra sérhagsmunum verði tekinn af þeim og færður öðrum. En það skal tekið fram að þeir gerðu engar athugasemdir við, heldur þvert á móti, að þeim skyldi úthlutað 43% umfram veiðireynslu - svo aðrir makrílsjómenn fengu minna sem því nemur. Til samanburðar fengu forráðamenn þessa samtaka á silfurfati fá 250-350 tonna aflaheimildir þegar stór hluti makrílbáta fengu innan við 25 tonn.
Undirritaður var eigandi smábáts sem sérstaklega var breytt og útbúinn til makrílveiða. Mér var úthlutað 3,2 tonnum. ( þrjú-komma-tvö-tonn )
Maður þarf ekki að vera fiskur til að vera tvöfaldur í roðinu.
![]() |
Vilja sérlög um makríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 26.12.2018 kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2018 | 23:41
Nýtt rannsóknarskip?
Það segir í fyrirsögninni að "nýtt skip muni bæta rannsóknir". Ég er algerlega ósammála því. Hvað er það annars sem nýja skipið á að gera sem eldri skipin geta ekki; nákvæmlega ekkert sem skiptir máli. Forstjóri Hafró nefnir í meðfylgjandi viðtali; að hægt verði að vera úti í verri veðrum - við loðnumælingar. Nú spyr ég, er einhver knýjandi þörf á því? Nei svo sannarlega ekki. Því við eigum einn glæsilegasta flota uppsjávarskipa sem er fullfær um að finna þær loðnu - peðrur sem finna þarf þegar mest á reynir eftir áramótin. Þannig hefur það verið undanfarin ár, enda best að hafa sem flest skip við leitina sem geta farið yfir sem stærst hafsvæði á sem skemmstum tíma. Þá dreg ég í efa að nýja rannsóknarskipið verði búið betri tækjakosti en uppsjávarflotinn - því hann er einfaldlega ekki til. Svo er það sér kapituli að kunna á tækin í dag. Ég sé t.d. nýja skipið fara út eftir áramót að leita að loðnu og það verði ekki fyrr en að lokinni vertíð að þeir verði farnir að ná þokkalgum tökum á tækninni.
Mun nýja skipið gera eitthvað fyrir okkur varðandi þorskinn? Ekki kem ég auga á það. Því hryggjarstykkið í stofnmati Hafró er togararallið sem saman stendur af togi nokkurra skipa á nákvæmlega sama tíma ár hvert - og ennþá gert með sama hætti og get var fyrir 1980. Þar má heldur engu breyta sem spillt gæti samanburði við fyrri rannsóknar. Ég gæti t.d. alveg trúað því að millibobbingarnir séu enn á sínum stað. Vandamálið er ekki að það vanti nýtt skip, ný gögn eða fleiri sýni til að rýna í. Enda snýst nútíma fiskifræði um að rýna í tölvur og formúlur frekar en nokkuð annað. Vandamálið er stofnunin sjálf og hefur verið allar götur frá stofnun hennar. Fjölmörg gögn og skýrslur staðfesta það.
Frá árinu 1950-1975 var meðalafli í þorski 450 þúsund tonn. Allan þann tíma vorum við með stóran flota Breta og Þjóðverja sem lengst af fiskuðu fyrir innan 12 mílurnar með klædda poka og minni möskva en eftir að "okkar færustu vísindamenn" tóku yfir stjórnina. Fyrstu árin eftir að Hafró kom til sögunnar hélst afli nær óbreyttur, en síðan fór að síga á ógæfuhliðina og afli fór á tímabili niður í þriðjung þess sem áður var. Afli var sem sagt í sögulegri lægð u.þ.b. 20 árum eftir að rákum útlendinga út fyrir 200 mílurnar og við einir sátum að auðlindinni.
Síðastliðin 40 ár höfum við verið að "byggja upp" samkvæmt nýtingarstefnu Hafró. Á öllum þeim tíma erum við rétt núna að nálgast 75% af þeim jafnstöðuafla sem var fyrir daga Hafró. Og það stórundalega er; að þetta er talið vera árangur sem blásinn er upp i fjölmiðlum.
Vissulega er þorskstofninn í sögulegri stærð um þessar mundir - en veit það á gott? Nei svo sannarlega ekki, því ekki má veiða nema 20% af viðmiðunarstofninum ár hvert - eða u.þ.b. jafn mikið og árlega drepst náttúrulegum dauðdaga. Þá er samsetning stofnsins afskaplega óhagstæð. En hún samanstendur af óvenju háu hlutfalli af gömlum árgöngum - stórum fiski - sem étur ungviðið. Þetta sýnir sig í afla strandveiðisjómanna. En mjög víða eru þeir að fá 5+ og jafnvel 8+. Yngstu árgangana finnum við svo í maganum á þeim stóru.
![]() |
Nýtt skip mun bæta rannsóknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.11.2017 | 22:27
Vinsamleg tilmæli til Vinstri grænna.
Ég hætti mér ekki í brottkastumræðuna að þessu sinni, en ég tók virkan þátt í henni árin 2003- 2006 svo ég fékk alveg nóg af..... Hins vegar sendi ég völdum þingmönnum smá pistil í kjölfar fréttaþáttar Helga Seljan, Kveikur í gærkveldi... Í pistlinum er ég að í aðra röndina að reyna að brýna kutann fyrir Katrínu Jak. En fyrir viku síðan hafði ég sent henni annan og ýtarlegri sem er of langur hér inni.
Þingflokkur Vinstri grænna. 21.11 2017.
Í síðustu viku skrifaði ég pistil sem ég kallaði, innlegg í samningaviðræður, Katrínar Jakobsdóttur við þá Bjarna Ben og Sigurð Inga. Í pistlinum tiltók ég nokkur atrið sem ég taldi brýnt að hafa í huga í samningum hennar við þá fulltrúa forréttinda og sérhagsmuna. Nefndi ég alveg sérstaklega hvernig Sigurður Ingi misbeitti valdi sínu og sýndi fáheyrða ósvífni er hann sem sjávarútvegsráðherra hóf árið 2015 að reyna að koma makrílveiðum smábáta í kvóta.
Þó flestum sé ljóst að maður með ónýta kennitölu og afglöp á ferilskránni eigi mjög litla möguleika á þokkalegu starfi í einkageiranum, þá er allt annað upp á teningnum á hinu pólitíska sviði. Það sem mér yfirsást um daginn er sú yfirvofandi hætta að blessaður maðurinn verði endurráðinn. Ef það gerist verða Vinstri græn að standa alveg klár á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi að við erum ekki með “besta fiskveiðikerfi í heimi” sem allir horfa öfundaraugum til. Sú mýta er orðin það þvæld eins og við sáum í þættinum Kveik í Sjónvarpinu í kvöld; að þorskur sem hangir á skreiðarhjalla er sem ferskfiskur í samanburði.
Nágrannaþjóðir okkar sem “tekið hafa okkur til fyrirmyndar” eru nú hver af annarri að laga kúrsinn og snúa sinni útgerð af rangri leið. Það er m.a. að renna upp fyrir mörgum að það þarf ekki togara hlaðinn meiri tækni en geimskip til að veiða þorsk á grunnslóð. Sérstaklega ekki þegar haft er í huga að þorskaflinn hér við land er ekki meiri en hann var á árunum á milli fyrri- og seinni heimsstyrjalda.
Það er allt gott og blessað með tæknina en það á ekki að leyfa henni að drepa lífið á landsbyggðinni í leiðinni. Þá hafa sífellt fleiri verið að átta sig á því að það er eitthvað verulega rangt við þá þróun að ætla stöðugt að fækka þeim sem lifibrauð sitt hafa af sjómennsku á sama tíma og atvinnuþróunarfélög gera hvað þau geta til að finna upp á - bara einhverju í staðinn. Á meðan syndir þorskurinn áhyggjulaus fyrir utan bryggjuna; vegna þess að nokkrir menn, ýmist fyrir sunnan eða norðan, eru sagðir eiga hann.
Það bárust fréttir af því fyrir um tveim vikum að ESB hafi miklar áhyggjur af fækkun sjómanna og ætli að snúa þeirri þróun við. Þeir hafa miklar áhyggjur þrátt fyrir að sjómenn í fullu- eða hlutastarfi séu nálægt 70 þúsund innan þeirra vébanda. Og hvers vegna skyldi það nú vera; jú vegna þess að þeir skilja mikilvægi þess að menn geti stundað þá atvinnu sem hugur hvers og eins stendur til – fyrir utan kúltúrinn í byggðunum sem annars myndi hverfa. Hér heima hafa menn hins vegar þurft að kæra ríkið til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem ályktaði þeim í hag. Og hvernig brugðust stjórnvöld við; jú með því að gera eins litið og hægt var að komast upp með.
Er við öðru að búast þar sem heimskan ríður húsum. Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Ben, sagði t.d. fyrir stuttu síðan… að hann skildi ekki þessa strandveiði, því það mætti spara mikinn mannskap með því að taka þennan afla með einu línuskipi. Hann virðist ekki skilja að það er ýmislegt fleira sem gefur lífinu gildi en að spila golf, fara til Florida eða renna sér á skíðum í Ölpunum. Menn eru bara ekki allir eins innréttaðir og Bjarni.
Nema Bjarni hafi verið að meina eitthvert af línuskipum tveggja stærstu línuútgerða landsins. Meðalaldur skipa þessa fyrirtækja er annars vegar 42 ár og hins vegar 49 ár. Þessi glæsilegu fyrirtæki hafa m.ö.o ekki verið að henda miklum fjármunum í nýsmíði í gegnum tíðina. En samkvæmt efnahafsreikningi þeirra er samt alveg klárt að þau hafa verið að henda þeim eitthvert. Því fastafjármunirnir eru minni en vaxtaberandi langtímaskuldir. Þær eiga með öðrum orðum ekki neitt í gömlu skipunum heldur. Einu bókfærðu eignir þeirra er kvótinn - sem ef mig misminnir ekki er sameign þjóðarinnar.
Það sama má raunar segja um Granda. Fastafjármunirnir mínus vaxtaberandi langtímaskuldir eru aðeins rétt yfir núllinu síðast þegar ég athugaði. Talandi um vexti, þá er sennilega öll sú glæsilega uppbygging sem að undanförnu hefur átt sér stað í skipum og hátækni- frystihúsum fjármögnuð erlendis frá, á vöxtum sem eru eitthvað aðeins fyrir ofan núllið. Undirritaður getur staðfelst að smábátaflotinn er að fjármagna sig á 8-9% … er einhver að tala um mismunun eða aðstöðumun?... er stórútgerðin yfir höfuð að nota íslensku krónuna, ég bara spyr.
Nú duga engar smáskammtalækningar líkt og að færa einn dag af svæði C yfir á svæði D eða annan sambærilegan fíflagang. Þeirri ósvinnu stjórnvalda að etja einum hópi smábáta gegn öðrum eins og mýmörg dæmi er um þarf að linna. Þá verða stjórnvöld einnig að átta sig á að nær allir sem berjast fyrir kvóta - um allt og ekkert – gera það í þeim eina tilgangi að geta selt hann síðar meir. Lyfleysu tímabilinu á þannig að vera lokið og annað tímabil runnið upp þar sem handfæraveiðar verða frjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Punktur.
Umræðan og þrýstingurinn á stjórnvöld og stórútgerðina virðist ætla að koma að utan líkt og vökulögin gerðu á sínum tíma. Sem fyrr segir hefur ESB miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi og allri græðisvæðingunni sem þar hefur orðið. Hvort “innganga” Samherja í ESB hafi eitthvað með það að gera skal ósagt látið.
Á ráðstefnu í Tromsö í Noregi um daginn spannst sterk umræða um það með hvaða hætti smábátaflotinn gæti varist yfirgangi stórútgerðanna. Meðal þess sem fram kom fram var tillaga prófessor við háskólann þess efnir að leitað yrði til Mannréttindadómstólsins í Hag til að verja eðlileg og sjálfsögð mannréttindi smábátasjómanna. Þá voru að berast fréttir af því að náðst hafi breið samstaða allra stjórnmálaflokka í Danmörku um að stöðva beri samþjöppun veiðiheimilda og koma þannig í veg fyrir að stærri útgerðir gangi af smábátaútgerð dauðri.
Hér heima er það helst að frétta að í síðustu viku var haldin tveggja daga ráðstefna í Hörpu um sjávarútvegsmál. Það voru haldin a.m.k. 14 erindi og fjöldi málstofa þar sem nánast allt sem viðkemur nútíma sjávarútvegi var tekið fyrir og grandskoðað - allt niður í smæstu örverur - en ekkert um mannverur.
Ef Vinstri græn standa ekki í lappirnar í samningum sínum við fulltrúa forréttinda og sérhagsmuna, er flokkurinn varanlega búinn að spyrða sig við spillingaöflin…
Undirritaður er fyrrverandi veiðarfærasölumaður og smábátaeigandi.
atlihermanns@gmail.com
![]() |
„Verður kært strax í fyrramálið“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2017 | 18:35
Það verður engin sátt.
Þorgerður Katrín segir „Ég held að lykillinn að því að skapa sátt sé að útgerðin greiði aukið gjald í sameiginlega sjóði samfélagsins.“ Ég er ekki sammála Þorgerði þarna. Heldur er umræðan skipulega sett í þennan farveg, vegna þess að þessi nálgun hentar stórútgerðinni sem hefur töglin og hagldirnar. Það skiptir útgerðina nefnilega nákvæmlega engu máli hvort hún greiðir nokkrum krónum meira eða minna í veiðileyfagjald. Það hentar útgerðinni að láta það líta þannig út að þetta sé ásetningasteinninn.
Málið er á meðan stjórnvöld reyna ekki neitt að koma til móts við þekkta gagnrýni Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á fiskveiðikerfið - þá verður engin sátt.
Þegar forréttindi fáeinna einstaklinga eru látin aftengja 75 grein stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi- verður engin sátt.
Ef einhver smá vilji er til staðar um að skapa einhverja sátt. Þá getur Þorgerður Katrín byrjað á því að fella niður reglugerð Nr. 532/2015 þar sem aðeins 20 smábátum af þeim 120 sem fjárfest hafa í dýrum búnaði til veiðar á makríl, fá rúmlega helminginn af öllum heimildum flotans.
Á meðan nokkrum sérvöldum einstaklingum eru færðar 43% meiri veiðiheimildir í makríl en veiðireynsla þeirra segir til um - verður engin sátt.
Þessa fáránlegu reglugerð kom Sigurður Ingi á eftir að hafa verið gerður heimaskítsmát í mai 2015 með lagafrumvarp sama efnis. Þorgerði Katrínu er sem sagt í lófa lagið að aftengja makrílreglugerðina sé nokkur vilji til þess. Það myndi svo sannarlega auka lítillega líkurnar á sátt í greininni - og sýna í leiðinni að hreinræktuð spilling og gróf mismunun frá framsóknarflokknum verður ekki viðhaldið af Viðreisn.
![]() |
Vill skapa sátt um sjávarútveginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2016 | 12:54
Betri nýting, en hvað svo
Gefum okkur að þetta sé allt rétt hjá Þorsteini Má. En þá er því ósvarað hvað Norðmenn eigi eiginlega að gera við skreiina til að auka nýtinguna og þar með verðætin á henni - og standa okkur þar með á sporði. Skreiin er göngufiskur sem blossar upp á þessum tíma árs. Þetta er þorskur sem hverfur aftur jafn fljótt og hann kemur. Við þekkjum þessa vertíðarstemmingu þeirra sem kennd er við Lofotenn svæðið. Það er einfaldlega ekki í boði að dreifa veiðunum yfir árið eins og við getum og gerum varðandi okkar þorskveiðar. Til samanburðar; af hverju veiðum við ekki grásleppu eða tökum upp kartöflur allt árið?
Umræðan og samanburðurinn við Norðmenn er því sem fyrr á röngum forsendum og til þess eins að kasta rýrð á þá og upphefja okkur sjálfa. Mér finnst samt eitthvað merkilegra við að veiða 600 þúsund tonn af þorski en 200 þúsund. Þá finnst mér einnig merkilegra að sjá 10 þúsund hafa afkomu sína af fiskveiðum en 3 þúsund svo einhver tala sé nefnd til samanburðar.
Nú á ég 11 tonna hraðfiskibát sem ég endurbyggði og útbjó sérstaklega fyrir makríl - sem þá var kallaður engispretta hafsins - vegna þess hversu stór stofninn er. Ég hafði rétt hafið veiðar þegar sjávarútvegsráðherra stöðvaðaði veiðar smábáta. Það næsta sem ráðherra gerði var að hann setti makríllinn í kvóta og því fæ ég engan kvóta - þó svo að verðið færi aftur upp og veiðarnar yrðu arðbærar einhvern tíma seinna. Það er búið að gefa makrílinn nokkrum útvöldum.
Ég get vissulega leigt mér þorsk til að hafa einhver not fyrir bátinn - en það er sem kunnugt er betra að gera ekki neitt.
Ég get líka farið á strandveiðar og kroppað inn á bátinn einhver tonn í sumar. En ekki meira en það því þess er vandlega gætt af "hagsmunaaðilum" að ég komi ekki með nema nokkur hundruð kíló úr hverri veiðiferð - og svo er dagarnir skammtaðir og einnig tíminn sem ég má vera að veiðum - - svo stofninum stafi nú ekki hætta af.
En ég get líka farið með bátinn til Noregs og komið honum inn í litla kerfið þar. Það tæki mig u.þ.b. eitt ár að koma því í kring. Þar fengi ég að veiða tæp 50 tonn af þorski auk fría ýsu og ufsa.
Hvort kerfið er betra?
![]() |
Gerum meiri verðmæti úr sjávarafla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2015 | 11:12
Fáheyrð ósvífni.
Ég er eigandi krókabáts með skipaskrárnúmerið 7126. Bátinn endurbyggði ég á síðasta ári og útbjó sérstaklega til krókaveiða á makríl. Það gerði ég í trausti þess að réttlátari og nútímalegri aðferðir yrðu teknar upp við úthlutun á veiðiheimildum í makríl, aðrar en þær umdeildu aðferðir sem við þekkjum úr kvótakerfinu.
Eitt augnablik hélt ég að með tilkomu þessa nýja nytjastofns hefðum við lært af biturri reynslu fyrri ára og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar yrði jafnvel höfð til hliðsjónar við úthlutun Þau rök sem alla jafna liggja að baki þeirri ákvörðun að tiltekinn fiskstofn skuli vera kvótastýrður eru þau að með því sé verið að koma í veg fyrir ofveiði og stuðli að uppbyggingu stofnsins, sé talin þörf á því. Þetta eru rökin sem notuð voru fyrir upptöku á kvótakerfinu á sínum tíma. Því er fráleitt að ætla að líf- eða vistfræðileg rök liggi að baki þeirri ákvörðun að kvótasetja beri vistvænar krókaveiðar smábáta, sem aðeins ná til 0,5% af heildarstofninum.Þar fyrir utan hefur makríllinn verið kallaður engispretta hafsins og því verið haldið fram að afrakstri annarra nytjastofna geti stafað hætta af honum.
Engin rök mæla með því að makrílveiðar smábáta séu kvótasettar, heldur þvert á móti. Hvað ef t.d. Steingrímsfjörður á ströndum fylltist af makríl líkt og gerðist árið 2013. Aðeins þrír heimabátar hafa einhverja veiðireynslu; en samtals átta bátar frá Hólmavík og Drangsnesi sem fjárfest hafa í makrílbúnaði og hófu veiðar á síðasta ári munu þurfa að horfa aðgerðarlausir á. Hvað ef eigandi útgerðar sem úthlutað hefur verið veiðiheimildum ákveður að hefja ekki veiðar vegna lækkandi verðs á makríl og hækkandi veiðileyfagjalds.Hverjum mun það gagnast?
Þörf í þágu hverra?
Þegar tillögur ríkisstjórnarinnar vaðandi smábátaflotann eru skoðaðar kemur í ljós að hygla á sérstaklega eigendum nokkurra smábáta sem fyrstir hófu veiðarnar árin 2009 - 2012. Þeim verður umbunað með 43% vægi umfram alla þá sem á eftir komu. Þetta er rökstutt þannig að á þeim tíma hafi staðið yfir ákveðin þróun á “veiðitækni og veiðarfærum” sem þeir sem á eftir komu hafi notið góðs af eins og segir í frumvarpinu. Þetta er svo mikill þvættingur að orðalagið eitt getur valdið velgju.
Ég hef sjálfur tekið þátt í að smíða makrílbúnað í nokkra báta og get því staðfest að útfærslan á umræddum búnaði er öll sótt til frænda okkar Norðmanna, sem í 12 ár hafa notað sams konar búnað með ágætis árangri. Það er m.ö.o. nákvæmlega engin íslensk þróun á bak við þennan búnað eins og sagt er. Það er lygi sem búið er að sanna en samt verður þvælan ekki leiðrétt.
Af yfir 100 makrílbátum hafa aðeins þeir sem að eigin sögn “þróuðu veiðitæknina“ beitt sér fyrir kvótasetningu smábáta á makríl. Sá sem harðast hefur beitt sér heitir Davíð Freyr Jónsson, eigandi Fjólu GK 121. Svo skemmtilega vill til að hann er í framvarðarsveit Framsóknarflokksins og einn besti vinur Sigundar Davíðs forsætisráðherra. Hann mun vegna 43% reglunnar fá í sinn hlut rúmlega þrisvar sinnum meiri kvóta en hann veiddi á síðasta ári. Þess má einnig geta að nokkrir útgerðarmenn eru sagðir hafa sýnt þá "fyrirhyggju" fyrstu árin að landa miklu magni af sjó sem makríl til að skapa sér meiri veiðireynslu.
Meðfylgjandi mynd er af norskum krókabát sem útbúinn er fullkomnum makrílbúnaði. Rétt er að benda á; að myndin er tekin a.m.k. tveimur árum áður en Davíð Freyr tók sig til og hannaði og þróaði viðkomandi búnað.
Ég mun ekki sætta mig við þessar trakteringar, svo mikið er víst.
![]() |
„Forkastanleg vinnubrögð sjávarútvegsráðherra“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2012 | 20:10
The Santana and Allman Brothers Band.
Þegar ég hóf að safna hljómplötum á sínum tíma urðu tvær hljómsveitir fyrstar fyrir valinu. Önnur þeirra var Santana sem stuttu áður hafði slegið í gegn á Woodstock hátíðinni. Hin var The Allman Brothers Band sem þá þegar hafði full skapað sem síðan hefur verið kallað Suðurríkjarock - með níðþungu Hammondi, tveim trommurum og tveim frábærum gítarleikurum. Allar götur síðan hef ég fylgst nokkuð vel með þessum sveitum og síðustu árin á heimasíðum þeirra.
Í vor tek ég svo eftir því að hljómsveitirnar ráðgerðu að fara saman í tónleikaferð um Bandaríkin. Ég sá í hendi mér að af þessu mætti ég ekki missa - enda líkt og forlaugin væru hér að verki.
Tónleikarnir voru þann 24. júlí á stórglæsilegum stað sem heitir Nikon at Jones Beach Theater sem er á Long Beach. Eftirvæntingin var eðlilega mjög mikil; hvernig verður sándið, lagavalið eða útsetningarnar á gömlu lögunum sem vonandi fá að eiga sviðið.
Santana byrjaði í björtu á slaginu sjö og spilaði óslitið í tvo tíma. Flutningurinn og hljómburðurinn var algerlega með ólíkindum flottur og þá var lagavalið eins og sniðið að mínum smekk. Það er ekki hægt að útskýri alla hluti. En þegar Santana renndi sér í seinna uppklappið sem hann útsetti með þekktum stefum og skreytingum úr öðrum lögum - þá vonaði maður eitt augnablik að lagið tæki aldrei enda. En þegar því lauk stökk maður á fætur við hliðina á Ingibjörgu og hrópaði upp yfir sig „holy shit" í merkingunni, hvernig var þetta eiginlega hægt.

Þá kom hálftíma hlé á meðan rótað var á sviðinu fyrir Allman Brothers Band. Aumingja þeir að þurfa að koma á eftir þessum ósköpum hugsaði maður með sér. En þeir höfðu gert það áður og áhyggjurnar reyndust ástæðulausar. En böndin hafa þann háttinn á að skiptast á um að byrja.
Myndin af Santana hér til hliðar er tekin þaðan sem við Ingibjörg sátum, en hinar teknar af vinkonu okkar Gwyn Dunham.
Fæstir hér heima vita að ABB er og hefur verið ein stærsta og virtasta hljómsveit Bandaríkjanna frá stofnun hennar fyrir rúmum 40 árum. Það fann maður greinilega þegar þeir stigu á svið. Þá eru þeir ekkert farnir að slá af. En þess má geta að þrír meðlimir ABB þeir Gregg Allman, söngvari og hljómborðsleikari, Warren Haynes, gítarleikari og Derek Trucks, gítarleikari reka einnig eigin hljómsveitir sem mikið hefur borið á síðustu árin. Þá voru þeir allir með sína plötuna hver útnefndir á síðustu Grammy hátíð með Bestu Blús Plötu ársins 2012. Hljómsveit Dereks and Susan Tedeschi Trucks sigraði með plötuna Revelator.

Það var afar sérstök upplifun að berja The Allman Brothers Band loksins augum eftir að hafa fylgst með þeim nánast frá stofnun. Stemmingin var að sjálfsögðu ólík salsa - rúmbu - og tja-tja taktinum hjá Santana. Enda allt í bullandi blús fíling hjá þeim þar sem gömlu lögin voru djömmuð út og suður. Þeir hefðu að ósekju mátt taka aðeins fleiri lög og stytta djammið aðeins, en ekki er á allt kosið. Síðasta lagið sem þeir tóku var Whipping Post sem finna má í spilaranum hér við hliðina. En þegar gengið var út í nóttina ómaði lagið Little Martha í hátalarakerfinu - dagur var liðinn sem aldrei mun líða mér úr minni - ekki einu sinni þó ég fái alzheimer.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2012 | 14:21
Miður góðar fréttir af þorskhausum.
Steingrímur segir „Það eru góðar fréttir af þorskinum. Erum nú að uppskera af því að hafa tekið strangt á málum og hefur nú tekist að byggja þorskstofnin myndarlega upp"
Hvílíkar blekkingar. Við erum enn langt innan við helming af meðalveiði í þorski hér við land á tímabilinu frá 1950 -1972 sem var 438 þúsund tonn. Þá berja þeir í Hafró sér á brjóst og eigna sér "ávinninginn" af réttri nýtingarstefnu sem þeir hafa notað án nokkurs árangurs allar götur frá árinu 1975. En árangurinn fellst í því að eftir að hafa skorið niður aflamarkið á löngu árabili um tugi þúsunda tonna er skitnum 18.400 tonnum loks bætt við.... sérhver er nú árangurinn.
Þá er rétt að benda á að sömu nýtingarstefnu, eða aflareglu, er beitt í ýsunni og og ef eitthvað er að marka Hafró er ýsustofninn að hrynja. Og svo þegar fleiri tegundir eru teknar inn i dæmið sem einnig þarf að skera niður verður tekjuaukningin sáralítil á milli ára. Í prósentu talið (ef einhverjir skilja það betur) er aukningin lægri en vextir á verðtryggðum húsnæðislánum til almennings.
Þá er alltaf f sömu lúa aðferðinni beitt til að fegra myndina. En í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram að ástand helstu nytjastofna sé gott og betra en hjá mörgum öðrum þjóðum. Því spyr ég; hvaða öðrum þjóðum - við erum aðeins með 2% af heimsaflanum þrátt fyrir að vera með bestu náttúrulegu aðstæður sem þekkjast fyrir bol- og annan botnfisk.
Hvenær verður Jóhanni Sigurjónssyni forstjóra Hafró vikið úr starfi vegna getuleysis? Í raun þyrfti að henda út öllum þeim sem einhverjum embættum gegna hjá þessari vísindakirkju.
![]() |
Verðmætaaukningin 10 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2012 | 16:59
Bréf til Steingríms.
Ég skrifaði Steingrími bréf sem birtist í Fréttablaðinu sumardaginn fyrsta. En það er alveg sama hvað sagt er við Steingrím eða hvaða upplýsingum maður vill að hann meðtaki - allt kemur fyrir ekki. Hann romsar bara sömu rulluna líkt og heilalaus væri. Þetta var fimmta bréfið sem ég hafði skrifað á stuttum tíma um sjávarútvegsmál. Hin bréfin fjögur hafði ég prentað út með nöfnum allra þingmanna og látið setja í pósthólfin þeirra. Það þarf ekki að taka það fram að enginn hefur séð ástæðu til að svara eða þakka fyrir - ekki eitt einasta skipti þó bréfin hafi samtals verið 252.
Bréfið.
Ágæti sjávarútvegsráðherra, þú sagðir í viðtali nýlega vera sannfærður um að sátt muni nást um fiskveiðimálin og að þið muni lenda málinu eins og þú orðaðir það. Gangi það eftir verður um magalendingu að ræða, því frumvörpin eru í hrópandi andstöðu við loforð stjórnarþingmanna fyrir síðustu kosningar. Í stað 15% fyrningar er farið í þveröfuga átt og nýtingasamningur gerður við útgerðarmenn til 20 ára. Þá er hann uppsegjanlegur eftir fimm ár og verði það einhvern tíma gert er alltaf 15 ára uppsagnartími. Þetta á við um 93.4 % af heildar aflamarki þjóðarinnar. Það litla sem eftir stendur er ætlað í leigupott. Því verður sem næst engu bætt í pottakerfið frá því sem nú er - heldur aðeins látið duga að hræra lítilega í nöfnum þeirra.
Þá er loforð stjórnarflokkana um frjálsar handfæraveiðar hvergi að finna. Þá er heldur engu bætt við strandveiðarnar - svo menn geti áfram verið vissir um að deyja frekar af þeim en lifa. Því er ekkert að finna sem stuðlað getur að aukinni verndun grunnslóða með notkun umhverfisvænni veiðarfæra. Ekki er heldur gert ráð fyrir aðskilnað veiða og vinnslu eða stakt orð um að öllum bol- og botnfiski skuli landað á opna fiskmarkaði. Þá er ákvæðið um 40/60 % skiptingu heimilda þegar þorskafli fer yfir 202 þúsund tonn hrein móðgun við allt hugsandi fólk. Væri reglan nú þegar í gildi hefði aðeins tvisvar reynt á hana síðastliðin 20 ár. Og þrátt fyrir afar hagstæð skilyrði í hafinu um þessar mundir og hækkun á stofnvísitölu þorsks, munu ægitök LÍÚ á Hafrannsóknarstofnun og röng nýtingastefna koma í veg fyrir að á skiptinguna reyni svo einhverju skipti.
Með þinglýstum 20 ára nýtingarsamningi verður mikil breyting. Því með honum fær útgerðin það staðfest að auðlindin sé í raun hennar séreign - hvað sem stjórnarskráin kann að segja. Í dag mega erlendir ríkisborgarar eiga allt að 49,9% í íslenskum útgerðum í gegnum sjóði og hlutdeildarfélög. En vegna ákvæðis í fiskveiðilögunum frá árinu 1990, sem segir að aflaheimildum sé aðeins úthlutað til eins árs í senn og myndar ekki eignarétt; þá höfum við aðeins eitt staðfest dæmi um erlenda fjárfestingu í íslensku útgerð. En með þinglýstum nýtingarsamningi verða íslensk útgerðarfyrirtæki fyrst áhugaverð fjárfesting. Og það ótrúlega er; að margir þeir þingmenn sem hvað harðast ganga gegn ESB aðild af ótta við erlenda skipaflota - munu með einka-nýtingarsamningi þessum gera útgerðarmönnum kleift að opna erlendum fjárfestum beinan aðgang að auðlindinni.
Kvótaþing á að endurvekja í umsjá Fiskistofu. En kvótaþing starfaði í þrjú ár og var lagt niður árið 2001 vegna þess að ekki þótti verjandi að ríkisstofnun hefði milligöngu og aðstoðaði útgerðarmenn við sölu á óveiddum fiski - sem samkvæmt 1. grein fiskveiðistjórnarlagana er sameign þjóðarinnar . En sérfræðingar í orðhengilshætti munu finna lausn á því.
Þá er svo búið um hnútana að umræðan er látin snúast um hagnað í makrílveiðum, veiðileyfagjald og þess mikla hagnaðar sem myndaðist hjá útgerðinni við fall krónunnar 2008. Umræðan um fiskveiðikerfið er því á hreinum villigötum og látin fyrst og síðast snúast um skattamál.
Vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á stjórnaskránni samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs; er afar mikilvægt að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson, synji væntanlegum lögunum staðfestingu og vísi þeim í þjóðarathvæði.
Bréf númer 5.
Undirritaður er fyrrverandi veiðarfærasölumaður... og e.t.v. væntanlegur smábátasjómaður.
Atli Hermannsson.
![]() |
Klára kvótamálin í vikunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2012 | 20:11
200 þúsund tonn, ekki meira.
Þetta smellpassar við 40/60 % regluna sem er í nýja fiskveiðifrumvarpinu hans Steingríms. Það er áætluð skipting heimilda þegar þorskafli fer yfir 202 þúsund tonn. 40% eiga að fara í sérstakan leigupott en 60% til núverandi handhafa. Væri reglan þegar í gildi hefði aðeins tvisvar reynt á hana síðastliðin 20 ár. Og þrátt fyrir afar hagstæð skilyrði í hafinu um þessar mundir og hækkun á stofnvísitölu þorsks, munu ægitök LÍÚ á Hafrannsóknarstofnun og röng nýtingastefna koma í veg fyrir að á skiptinguna muni nokkurn tíma reyna. Það verður að flokka það sem meiriháttar mistök ef farið verður eitthvað frammúr 200 þúsund tonnunum fyrir næsta fsikveiðiár.
Þá var átakanlegt að heyra í Jóhanni Sigurjónssyni í fréttum í dag, er hann þrástaglaðist á að þetta væri árangur af réttri nýtingarstefnu. Hvlíkur árangur... Við höfum á undanförnum árum sett af okkur ómældan afla og gríðarleg útflutningsverðmæti vegna vanveiði á þorski svo skiptir hundruðum þúsunda tonna. En svo er hoppað upp á hauginn vegna einhverra 25 þúsund tonna sem til stendur að auka í haust. Af hverju er forstjóri Hafró ekki leiddur út í handjárnum?
Í ár er þorskaflinn 20 þúsund tonnum meiri en veitt var hér við land árið 1912... þegar skútuöldin var að líða undir lok..
![]() |
Kvótinn færi í 200 þúsund tonn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar