16.9.2008 | 21:28
Rick Wright.
Richard Wright hljómborðsleikari Pink Floyd er fallinn frá 65 ára að aldri. Hann var einn stofnenda sveitarinnar árið 1965 ásamt þeim Nick Mason, trommara Syd Barret, gítarleikara og söngvara og Roger Waters á bassa. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar að David Gilmour gítarleikari og aðalsöngvari hljómsveitarinnar bættist í hópinn.
Ég hef mikið haldið uppá Rick og talið framlag hans mjög vanmetið. Þess má t.d. geta að flestir halda að Roger Waters sé maðurinn á bak við The Dark Side Of The Moon - en það er aldeilis ekki rétt. Í meginatriðum á Waters textana og eitt lag plötunnar, en Gilmour og Wright má segja að eigi restina af lögunum. Rick á til dæmis lögin Any Colour You Like, The Great Gig In The Sky og Us and Them sem Waters hefur sagt besta lag plötunnar.
Það vita flestir að ósætti kom upp í hljómsveitinni er þeir voru að vinna að gerð TheWall sem endaði með því að Waters rak Rick út hljómsveitinni. En færri vita forsögu þess og hvers vegna það gerðist. En ástæða brottrekstursins var óánægja Waters með rýrt framlag Ricks til plötunnar og hvað hann virtist áhugalítill um gerð hennar. Fyrir það fyrsta var hljómsveitin í raun gjaldþrota á þeim tíma eftir að hafa farið að ráðum fjárfesta sem ekki héldu vatni. Þá var Rick að ganga í gegnum erfiðan skilnað og fikta við eiturlyf á sama tíma. En raunveruleg ástæða þess að Rick sat með krosslagðar hendur í stúdióinu og beið fyrirmæla var sú að hann var hættur að sætta sig við að semja línur og endurbæta demó sem Waters skrifaði sig síðan einan fyrir.
Waters ákveður upp á sitt einsdæmi að leggja hljómsveitina niður eftir plötuna The Final Cut árið 1983 - en tókst ekki sem betur fer. Því þeir Gilmour og Mason ákveða að halda áfram og fá Rick aftur til liðs við sig. Hljómsveitin fór síðan í gríðarlega vel heppnaða heimsreisu 1987 sem fékk mig til að ákveða, að ef bandið færi einhvern tíma aftur af stað yrði ég fyrstur inn um hliðið.
Það gerðist svo 1994 að Pink Floyd gaf út eina af sínum bestu plötum, Division Bell og fóru í kjölfarið í sína síðustu hljómleikaferð. Ég var þeirrar gæfu að njótandi að sjá hljómsveitina í Parken Í Kaupmannahöfn í ágúst það ár. Þeir tónleikar (Pulse) eru með öllu ógleymanlegir. Þá sá ég Rick aftur á sviði þann 29 may 2006 með Gilmour félaga sínum úr Pink Floyd í The Royal Albert Hall í London. Hápunktur þeirra tónleika var að mínu mati er þeir tóku gamla lagið Echoes Þeir tónleikar voru teknir upp og gefnir út á DVD. Fyrir þá sem ekki voru í The Albert Hall þetta kvöld, þá er ekki tilviljun að diskurinn skuli heita "Remember that night" og Rick á ríkan þátt í því.
Myndbandið er frá The Royal Albert Hall.
![]() |
Einn af stofnendum Pink Floyd látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2008 | 01:30
John McCain og lygaþvælan.
John McCain er ábyggilega merkilegur maður fyrir marga hluta sakir. Þó ekki væri nema fyrir það sem hann sagði í ræðu sinni á flokksþinginu um þátttöku sína í Víetnam stríðinu - og hvað sú reynsla hefði gert honum gott. Eða eins og hann orðaði það sjálfur;" þá uppgötvaði hann þar ást sína á föðurlandinu". Ég gat heldur ekki skilið það öðruvísi en að hann stæði í eylífri þakkaskuld við stjórnvöld þess tíma fyrir að hafa gefið honum þetta tækifæri - og hvað reynsla hans sem stríðsfangi (pyntingarnar) hefðu gefið honum mikið. Manngæsku bandarískra stjórnvalda uppgötvaði hann einnig eitt kyrrlátt kvöld við þungar sprengjudrunur og bjarma í fjarska. Þá hafði hann einnig við svipaðar kringumstæður uppgötvað göfugan málstað bandarísku þjóðarinnar - sem fólst líklega í því að drepa eins marga Norður-Víetnama og kostur var. Að lokum þá bætti hann við, að hann hafi ekki orðið samur eftir þessa reynslu sína í Víetnam og er ég honum þar hjartanlega sammála.
Það jaðrar við að maður sé McCain gramur fyrir að hafa legið á þessari fallegu lífsreynslu allan þennan tíma. Hann hefði t.d. getað sagt vini sínum Georg Bush frá henni á sínum tíma, sem drifið hefði sig til Víetnam í stað þess að fela sig, fyrir misskilning, eins og rotta undir verndarvæng karls föður síns. Þá væru dætur Bush hjónanna sennilega í dag í Írak eða Afganistan í stað þess að hanga heima og missa af því sem gefur lífinu gildi.
![]() |
Metáhorf á ræðu McCain |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2008 | 21:24
Lítilsvirðing.
Góður vinur minn var í Breiðavík. Hann var tekinn af barnaverndaryfirvöldum fyrir það eitt að vera uppátækjasamur og koma úr systkinahópi einstæðrar móður. Er hann er tekinn frá fjölskyldu sinni vissi hann ekki annað en að hann væri að fara í stutta sumarbúðaferð. En ferðin breyttist í tveggja ára vítisvist þar sem beðið var öllum stundum að fá að komst heim til móður sinnar og systkina. Ég kann ekki að setja mig í hans spor, en þeir sem hafa frjótt ímyndunarafl geta velt fyrir sér þeim áhrifum sem það kann að hafa á 12 ára dreng að finnast hann vera svikinn og yfirgefinn auk þess að vera lítilsvirtur og misnotaður í tvö ár. Þeir sem hafa upplifað aðeins eitt af þessu gleyma því seint.
Nú réttum 40 árum seinna ætlar ríkisstjórnin að greiða vini mínum bætur" fyrir það óréttlæti sem hann varð fyrir. En samkvæmt fyrstu fréttum verða þetta ekki bætur - heldur enn ein lítilsvirðingin sem honum eru sýndar af þeim sem valdið hafa... Hann mun eiga von á að fá ein mánaðarlaun ráðherra í ríkisstjórn Íslands fyrir ómakið".
Ef þetta verður niðurstaðan má hver og einn ráðherra ríkisstjórnarinnar hundur heita fyrir þessa lágkúru.
![]() |
Telja bætur of lágar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2008 | 10:27
Ný stóriðja?
Það er ánægjulegt að nú á "síðustu og verstu tímum" skuli vera að bætast í fiski-flóruna stofn sem vonandi á eftir að skapa uppsjávarflotanum miklar tekjur um ókomin ár - líkt og stóriðja. Þetta eina hal hjá Margréti EA er hvorki meira né minna en 1% af þorskkvóta þessa árs svo það sé sett í samhengi.
Við það má bæta að Jón Kristjánsson fiskifræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið í síðustu viku undir fyrirsögninni virkjum miðin. þar undrast hann að skipa eigi nefnd til þess að kanna áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina, þrátt fyrir að fyrir liggi skýrsla um málið frá 2001 - og allir nema ráðamenn geri sér grein fyrir að kerfið hafi nú þegar lagt mörg sjávarpláss í rúst. Neikvæð áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina hafa verið öllum ljós, nema sægreifum og ráðamönnum.
Jón segir jafnframt í grein sinni:
"Ég átti erindi á Breiðdalsvík um daginn, þar voru fáir á ferli nema ferðamenn að fylla á bifreiðar sínar - úr sjálfsala.Tvær trillur voru við bryggju en enginn var á ferli við höfnina. Enginn bátur sást á hafinu svo langt sem augað eygði. Þaðan ók ég norður um til Egilsstaða, yfir Hellisheiði eystri og norður fyrir Sléttu til Akureyrar.
Ofan af Hellisheiði eystri var engan bát að sjá til hafs á Héraðsflóa og engan heldur á Vopnafirði. Í kauptúninu var lítið um að vera og ekkert líf við höfnina. Á Bakkaflóa sáust 2 trillur undan Langanesi.
Á Þórshöfn var sama sagan, örfáir bátar við bryggju en ekkert fólk að vinna, enginn fiskur og enginn bátur sást á sjó á Þistilfirði.
Af veginum við Súlur sunnan Raufarhafnar sást enginn bátur á sjó. Raufarhöfn er varla skugginn af sjálfri sér, örfáar trillur en enginn virtist vera í veiðiskap og engin sála var við höfnina. Þarna sá ég Kúbueinkennin, sem ég kalla svo: Húsum ekki haldið við, þau ekki máluð en látin grotna niður. Ein búð, opin fáa tíma á dag, engin dagblöð um helgar og eldsneyti aðeins úr sjálfsala. Þegar ekið var fyrir Melrakkasléttu var heldur engan bát að sjá, ekki heldur í Öxarfirði og á Kópaskeri voru fáir bátar við bryggju og enginn umgangur.
Annað sem einkenndi þessi sjávarþorp var að þar var nær engan fugl að sjá, örfáa hettumáva og fáeinar kríur, það var allt. Þetta var öðruvísi meðan menn stunduðu sjó á Íslandi, þá iðuðu allar hafnir af fugli, sem var að fá sér í gogginn.
Út af Tjörnesi var engan bát að sjá, það var ekki fyrr en kom að Húsavík að einn hvalaskoðunarbátur sást á leið í land með ferðamenn. Talsvert var af trillum í höfninni en lítið um að vera, flestar í biðstöðu vegna kvótaleysis.
Í öllu krepputalinu núna leggja menn til að taka erlent lán til að auka gjaldeyrisforðann. Engum virðist detta í hug að fara í sjóinn og sækja gullið þaðan. Þjóðinni er haldið í kreppu vegna þess að Hafró heldur því fram að það þurfi að "byggja upp þorskstofninn" með friðun, helst veiða ekki neitt. Ráðamenn gleypa ráðleggingarnar hráar þótt löngu hafi verið sýnt fram á að þetta sé líffræðilega ómögulegt. Vitnar þar best um 30 ára árangursleysi þessarar "tilraunar".
Það er á færi sjávarútvegsráðherra að bregða töfrasprota yfir sjávarþorpin og landið allt með því að auka aflaheimildir, stokka allt kerfið upp - og reka þjálfarann. Fyrir hverja er annars verið að reyna að byggja upp fiskstofnana? Það verða brátt engir eftir til þess að veiða."
Jón Kistjánsson.
Höfundur er fiskifræðingur.
![]() |
Methal hjá Margréti EA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2008 | 22:38
Í tilefni sjómannadagsins.
Það eru 70 ár síðan Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur og því merkileg tímamót nú á árlegum degi hátíðar og réttindabaráttu sjómanna.
Árið 1987 voru sett lög um Sjómannadaginn og reglur til að tryggja sem flestum sjómönnum frí á sjómannadaginn. Þar er einnig ákvæði um að sjómannadagurinn skuli vera almennur fánadagur og er hann því einn af 11 opinberum fánadögum landsins.
Að þessu sinni væri eðlilegast að ríkisstjórnin dragi einhvern hentifána að húni. Því eins og kunnugt er þá fengu stjórnvöld í október 2007 alvarlega áminningu frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Í áliti nefndarinnar segir að ríkisstjórn Íslands mismuni þegnum sínum og brjóti mannréttindi. Nefndin vísar til 1. greinar laganna um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 sem segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. En kvótakerfið mismuni, því veiðiheimildum hafi eingöngu verið úthlutað samkvæmt veiðireynslu áranna 1981 til 1983.Sú ráðstöfun kunni að hafa verið sanngjörn og eðlileg tímabundið. En með setningu laganna nr. 38/1990 hafi ríkisstjórn Íslands breytt réttindum almennings til þess að nýta opinbera eign í sérréttindi til valinna einstaklinga. Þeir sem hafi fengið úthlutað aflaheimildum og ekki nýtt þær geti selt þær, leigt og veðsett í stað þess að skila þeim aftur til ríkisins í samræmi við alla sanngjarna og réttláta mælikvarða.
Sérhagsmunagæsla er því kjarni kvótakerfisins þó svo að lögin segi annað. Þau segja tilganginn vera að vernda fiskstofna, bæta nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu í landinu.
En hvernig hefur tekist til? Eftir 25 ára tilraunastarfsemi hjá ríkis-vísindakirkjunni Hafró er enn verið að slá höfðinu við steininn. Þorskaflinn er t.d. aðeins einn þriðji af því sem eðlilegt getur talist - eða svipað og Bretar veiddu hér áður fyrr. Þá eru flestir aðrir fiskstofnar aðeins hluti af því sem var fyrir daga kvótakerfisins. Ef ekki væri fyrir nær stöðugar verðhækkanir á erlendum fiskmörkuðum á undanförnum árum væri útgerðin með sínar 300 milljarða í skuldum fyrir löngu komin í þrot.
En er breytinga þörf? Ekki segir ríkisstjórnin sem segir kvótakerfið það besta í heimi". Þá segir hún að hingað liggi stöðugur straumur erlendra stjórnmála- og fræðimanna - sem vart geta hamið sig fyrir hrifningu. En mun ríkisstjórnin bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Frekar ólíklegt að svo verði. Því forsætisráherra segir þjóðina ekki bundna af áliti nefndarinnar, þó sjávarútvegsráðherra útiloki ekki að einhverjar breytingar kunni að vera nauðsynlegar. Verði brugðist við - verður það að öllum líkindum auvirðilegt og eingöngu ætlað þeirri hlið sem snýr útá við - í átt að öryggisráðinu. Því munu mannréttindi sjómanna áfram verða fótum troðin. Sjómenn ættu því að minnast þess í aðdraganda næstu alþingiskosninga - og kjósa með fótunum.
Þessi pistill birtist einnig í fréttablaði Frjálslyndra í Kópavogi.
![]() |
Ekki forsendur til að greiða skaðabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2008 | 19:24
þægilega dasaður.
![]() |
Mest hugsað til Pink Floyd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 10.6.2008 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2008 | 10:43
Birta og ylur.
Hún mun færa þjóðinni birtu og yl sagði Jón Sólnes þegar öll spjót stóðu á honum að mig minnir árið 1975. Jón var þá formaður Kröflunefndar sem hafði yfirumsjón með framkvæmdum á svæðinu. Ég minnist Jóns með hlýhug. En Jón hitti ég í fyrsta skipti er ég bað hann um víxil í Landsbankanum á Akureyri árið 1973 til kaupa á bifreið. Þá var sá siður að fólk bað bankastjóra gjarnan um helmingi hærri upphæð en það þurfti í von um að fá helminginn. Ég undirbjó mig því samkvæmt því. Ég man ennþá hvernig mér leið að þurfa að fara og ljúga að sjálfum bankastjóranum og einum af mikilmennum bæjarins. Þá leið mér enn undarlegar þegar hann samþykkti upphæðina með þeim varnarorðum að gæta þess vandlega að láta ekki plata mig.
Jón var nefnilega mikilmenni þó lágvaxinn væri og spurði ekki um flokksskírteini eins og plagsiður var á þessum árum. Því kom það mér verulega á óvart þegar fjölmiðlar og andstæðingar hans í pólitík fóru að veitast að honum persónulega vegna tafa við framkvæmdir við Kröfluvirkjun. Þá var honum núið því um nasir að fara ógætilega með almannafé, en kostnaður hafði að hluta farið úr böndum og tafir orðið við framkvæmdirnar. Jón stóð um tíma blóðugur upp fyrir axlir við að bera af sér sakir en ekkert virtist duga - fella átti Jón af stallinum hvað sem það kostaði. En hluti af skýringunni gæti hafa legið í því, að Jón var ekki allra, hann var grófur í orðavali og virkaði hrokafullur á þá sem ekki þekktu hann. Því var hann kannski of auðvelt skotmark fyrir þá sem kunnu á fjölmiðlana.
Varðandi gagnrýnina á Jón Sólnes og hans verk þá var hún í meira lagi ósanngjörn. Því þær tafir sem urðu á framkvæmdum snéru allar að hlutverki Orkustofnunar og erfiðleikum við öflun á gufu fyrir virkjunina - en ekki því sem heyrði beint undir Kröflunefnd sem var heldur á undan áætlun ef eitthvað var með stöðvarbygginguna. Þá var bruðlið á svæðinu nær algerlega á kostnað Orkustofnunar sem fór ekki framhjá þeim sem störfuðu við Kröflu á aðal framkvæmdatímanum. Það var t.d. urmull af bílaleigubílum á svæðinu eins og frægt frægt var, en flestir þeirra tilheyrðu starfsmönnum Orkustofnunar eða undirverktökum þeirra.
Varðandi gagnrýnina á Jón Sólnes þá var maður honum á stundum argur, því manni fannst hann hafa getað varið sig svo miklu betur. Hann tók allt á sig eins og hann nyti þess að láta ungu mennina berja á sér. Því gekkst hann fúslega við vandræðagangi Orkustofnunar og bílabruðlinu þó hann hafi sjálfur látið gamla Pegautinn duga. Þá var ekki háum skrifstofukostnaði til að dreifa, því Jón hafði komið störfum nefndarinnar fyrir á skrifstofu sinni í Landsbankanum. En harðasta- og óbilgjarnasta gagnrýnin á Jón kom ekki frá andstæðingum hans í pólitík, heldur samflokksmönnum. Þeir unnu sér ekki hvíldar fyrr en þeim tókst að rýma sæti hans á Alþingi fyrir yngri manni, með fágaðri framkomu - sem bætti ásýnd flokksins og hafði unnið sér það helst til frægðar að kunna að setja saman stöku. Dauðasynd Jóns Sólness var að fá tvíborgaðan símreikning - sem "félögum" hans tókst að lokum að grafa upp - hverjir aðrir.
![]() |
Vilja stækka Kröfluvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.4.2008 | 21:14
Reykjanesbrautin.
Það setur alltaf að manni óhug við fréttir af bílslysum. En hann staldrar því miður/sem betur fer ekki lengi við í höfðinu á manni. Ef slysið á Reykjanesbrautinni nú í morgun gerði það, þýddi það einfaldlega að ég kannaðist við eða væri nátengdur einhverjum sem í því lenti.
Reykjanesbrautin virðist vera líkust rússneskri rúllettu nú eftir að framkvæmdir lögðust niður er verktakinn Jarðvélar ehf. fóru á hausinn. Það eru vissulega þrengingar á veginum sem skapa mikla slysahættu. En á haustmánuðum fór ég daglega þar um og tel mig því vita nokkuð um hvað verið er að tala þegar gagnrýni á ónógar merkingar ber á góma. En ég get bara ekki verið sammála þeirri gagnrýni. Það logar allt í merkjum á svæðinu og vísbendingum um að varlega eigi að fara. En er farið eftir þeim? Nei aldeilis ekki. Þær eru hundsaðar nær algerlega. Þeir sem keyra á um eitt 100 eiga það til að draga niður í 90 eða svo - en fæstir gera það svo nokkru nemur.
Til að fá landann til að hægja á sér niður í 50 eins og ætlast er til á ákveðnum köflum og ætti ekki að fara framhjá neinum, þá þyrftir að setja upp vegatálma eða hraðahindranir eins og eru á Álfhólsveginum í Kópavogi - með 50 metra millibili. Það er sem sagt ekki fyrr en óþægindin eru farin að verða óbærileg að við drögum úr hraðanum. Hvernig er það t.d. ekki á sumrin úti á landi þegar verið er að olíubera og laga malbikið. Þá eru vegfarendur gjarnan beðnir að hægja á sér niður í 30 kílómetra. En hver er reynslan? Við komum að mölinni gjarnan á 100 og hægjum niður í sirka 70. Og við gerum það ekki af tillitsemi við starfsmenn eða til að draga úr hættu á slysi.... Nei við gerum það af tillitsemi við bílinn sem við viljum ekki að skemmist á lakki undan grjótkastinu. Annars væri það sennilega ekkert nema dauðinn sem fengi mann til að hægja á sér.
Þá er þráfaldlega tönglast á því að merkingar séu með allt öðrum og betri hætti erlendis. En ég held að þetta sé bábilja. Það er einfaldlega þannig með okkur þegar við ökum erlendis, að þá veitum við merkingum miklu meiri athygli... það liggur í hlutarins eðli og þá erum við með hugann við aksturinn...
![]() |
Þrír á gjörgæsludeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2008 | 22:17
Siglingin.
Við skötuhjúin, ég og Ingibjörg brugðum undir okkur betri fætinum um daginn og drifum okkur ásamt kunningjahóp í siglingu um Karabíska. Þetta var enginn smábátur sem við fórum með heldur annað stærsta skemmtiferðaskip veraldar, 138 þúsundir tonn (svipað og þorskkvótinn) Eins og ég sagði var um betri fótinn að ræða hjá okkur (dansfóturinn). En þessi hópur samanstóð af "sex" hjónum sem saman hafa verið í dansi hjá Dansskóla Heiðars í bráðum 10 ár. (já ég leyni á mér) Við flugum til Orlando og vorum þar í tvo daga áður en haldið var frá Port Canaveral sem er í klukkutíma akstri frá. Skipið hét Mariner of the Seas og tilheyrir The Royal Carabbian sem er að stærstum hluta í eigu Norðmanna. Þetta var sjö daga sigling þar sem farið var í land á þremur stöðum. Costa Rica, St. Martiner og St. Tomas sem tilheyra Jónfrúareyjum. Þá fengum við smá auka siglingu upp að höfninni til Bahamas vegna veikinda eins farþegans. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að útskýra hvað fyrir augu bar eða hvers lags upplifun það er að fara í ferð sem þessa. En í albúminu hér til hliðar eru nokkrar myndir sem segja eitthvað til um það "hvað gekk á". Það skal tekið fram að youtube ræman er tekin á "aðalgötunni" sem er 130 metra löng liggur eftir miðju skipinu með verslanir, bari og kaffihús á bæði borð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.2.2008 | 19:05
Sikileyjarvörn
Hann skrifar grein í Fréttablaðið í dag föstudag og rekur sögu kvótakerfisins með nokkuð frjálslegum hætti svo ekki sé meira sagt. Hann byrjar t.d. strax í fyrstu málsgrein á þvælu en ekki staðreyndum. Helgi segir: "Þegar aflabrestur varð í þorskveiðum á árunum 1982-1983 sem og umtalsverður taprekstur í fiskveiðum náðist samstaða á meðal hagsmunaðila og stjórnvalda um að taka upp breytta stjórn botnfiskveiða fyrir árið 1984."
Það var enginn aflabrestur. En ef Helgi vill endilega kalla 388 þúsund tonna afla 1982 og 300 þúsund tonn 1983 aflabrest. Hvað kallar hann þá 130 þúsund tonn eftir 25 ára þrotlausa uppbyggingu? ...kannski besta kerfi í heimi?
Þá segir Helgi Áss m.a. þetta undir millifyrirsögninni atvinnufrelsið og ofveiðivandinn 1984-1990. "Atvinnufrelsið á tímabilinu 1984-1990 átti þátt í að samtals var landað 440 þúsund tonnum af óslægðum þorski umfram það sem ráðherra hafði ákveðið sem heildaraflaviðmiðun og 635 þúsund tonnum umfram það sem Hafrannsóknarstofnun hafði mælt með."
Ef við skoðum stofnmat þorsks, aflann og ráðgjöfina á þessu "hræðilega tímabili" - að mati Helga. Þá var stofnmat þorsks árið 1984 900 þúsund tonn. Til ársins 1990 var á hverju ári farið 31% -38% frammúr ráðgjöf Hafró. En þrátt fyrir alla frammúrkeyrsluna stækkaði stofninn á milli einstakra ára og var 834 þúsund tonn 1990 - eða því sem næst það sama og 1984. En þá barði þáverandi Sjávarútvegsráðherra í borðið og tók fyrir framúrkeyrsluna í eitt skipti fyrir öll. Nú átti að sýna ábyrgð og festu og koma þorskstofninum í áður þekktar hæðir. En söguna þekkjum við... Síðastliðin 18 ár hefur verið farið 94% eftir ráðgjöf Hafró... með þeim afleiðingum að það stefnir í sögulegt lágmark.
Því skora ég á Helga Áss. að útskýra hér fyrir neðan í hverju "glæpurinn" er fólginn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
floyde
Tónlistarspilari
Tónlist
Tónlist
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 44302
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar